Friður og svigrúm.

Greinar

Spár um kosningar í haust gufuðu upp við undirritun heildarkjarasamninga Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Svo friðsamlegt varð í þjóðfélaginu, að meira að segja harðorðir sjómenn og útgerðarmenn féllust óvænt í faðma og sömdu.

Ekki eru allir ánægðir með friðinn. Órólega deildin í Alþýðubandalaginu varð undir, þrátt fyrir vaxandi umsvif trotskista í Dagsbrún. Bandingi þeirra, Guðmundur J. Guðmundsson, lýsir óánægju sinni, en treystir sér ekki til að vera á móti samningnum.

Skapstyggðar verður víðar vart á þeim slóðum. Formaður Alþýðubandalagsins, Svavar Gestsson, hefur flest á hornum sér. Sérstaklega hefur þetta komið fram í ummælum um mótdrægar niðurstöður skoðanakannana.

Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambandsins, hefur tekið þann kaleik frá Alþýðubandalaginu að þurfa að láta reyna á fylgið í kosningum. Það merkilega er svo, að Svavar og órólega deildin kunna honum litlar þakkir.

Fleira var athyglisvert við friðarsamninginn. Fulltrúar Alþýðuflokksins í Verkamannasambandinu knúðu hann þar fram, þótt skoðanakannanir bentu til, að flokknum mundi vegna afar vel í haustkosningum, sem menn voru farnir að spá.

Skýringin er auðvitað sú, að þessir menn tóku hagsmuni launþega fram yfir flokkshagsmuni og stjórnarandstöðuhagsmuni. Slíkt er of sjaldgæft hér á landi. En vonandi geta menn líka grætt pólitískt á ábyrgum gerðum.

Ljóst er, að í Alþýðusambandinu ráða ferðinni ábyrgir menn á borð við Ásmund Stefánsson, Björn Þórhallsson, Karvel Pálmason og Karl Steinar Guðnason, sem taka efnislegan árangur launþega fram yfir trumbuslátt og pólitíska sjónleiki, og geta samt haldið samfloti hinni ólíku sérsambanda.

Af stjórnmálaflokkunum græðir Framsóknarflokkurinn mest á friðnum, þótt hann hafi hvergi komið nærri. Fylgi flokksins er í mikilli lægð, hliðstæðri þeirri, sem verður vart hjá Alþýðubandalaginu. Framsókn hafði ekki efni á haustkosningum.

Nú fær flokkurinn að blómstra áfram í stjórnarsamstarfi, sem er að flestu leyti í hans anda. Hér hefur stundum verið sagt, að Framsóknarflokkarnir í ríkisstjórninni væru raunar tveir. Sumir ráðherrar og ráðamenn Sjálfstæðisflokksins ættu vel heima í Framsókn.

Skýrast kom þetta fram í einhug stjórnarflokkanna við afgreiðslu Framleiðsluráðslaganna, gegn vilja bænda, neytenda og allra annarra, sem tjáðu sig um málið. Þessi lög eru einhver stórkarlalegustu Framsóknarflokkslög, sem sézt hafa í langan tíma.

Þinglið Framsóknar og Sjálfstæðis var hjartanlega sammála um að setja lög, sem grunnmúra ríkisrekstur hins hefðbundna landbúnaðar og færa þennan ríkisrekstur yfir á aðrar búgreinar, er hingað til hafa reynt að standa á eigin fótum.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins kunna að telja flokkinn hafa efni á verkum sem þessum, úr því að hann fær ágætar tölur í skoðanakönnunum. En langvinnt samstarf við Framsóknarflokkinn getur þó um síðir hefnt sín. Fylgið við sjávarsíðuna og á Suðvesturlandi getur bilað.

En almennt má segja, að staða ríkisstjórnarinnar hafi styrkzt við friðinn á vinnumarkaðinum. Ekki er fyrirsjáanleg nein kollsteypa í líkingu við þá, sem varð á öndverðum síðasta vetri. Svigrúmið, sem fylgir vinnufriði, er ríkisstjórn alltaf til framdráttar, hvort sem hún á það skilið eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV