Þannig féll bjórinn.

Greinar

Bjórinn féll á Alþingi af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi voru margir þingmenn alls ekki eins hlynntir honum og þeir höfðu látið í veðri vaka. Í öðru lagi sundruðust þeir í ýmsar áttir, meðan andstæðingar bjórsins greiddu jafnan atkvæði á sem tæknilega áhrifamestan hátt.

Neðri deild fór fyrst af stað með því að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu og taka sjálf þá efnislegu afstöðu að samþykkja bjórinn beint. Á þeirri stundu virtust hlutföllin á Alþingi endurspegla nokkurn veginn meirihlutaviljann, sem hafði komið fram í skoðanakönnunum.

Í efri deild byrjaði hins vegar ballið. Ef meirihluti hennar hefði í raun viljað bjórinn, hefði hann fallizt á niðurstöðu neðri deildar og bjórinn orðið að lögum. En þá neitaði deildin að taka afstöðu til bjórsins og samþykkti í staðinn svokallaða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef þetta hefði verið fyrri deild, væri ekkert við niðurstöðuna að athuga. Bæði sjónarmiðin eru gild, að Alþingi eigi sjálft að skera úr málinu og að það eigi að vísa því til þjóðarinnar. Að vísu átti þjóðaratkvæðagreiðslan aðeins að vera ráðgefandi, ekki bindandi.

En efri deild var síðari deild. Hún samþykkti málsmeðferð, þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fyrri deild var búin að hafna. Hún neitaði bjór, sem fyrri deild var búin að samþykkja. Hvort tveggja var auðvitað harðvítug gagnrýni á neðri deild og ögrun við hana.

Þeir, sem studdu þjóðaratkvæðagreiðsluna í efri deild, voru vitandi vits að búa til stöðu, sem neðri deild ætti auðvitað erfitt með að kyngja. Þeir voru beinlínis að tefla bjórmálinu í tímahrak og þá óskastöðu, að bjórinn færi aftur í efri deild og loks í sameinað Alþingi.

Engar líkur voru á, að þetta tækist í ringulreiðinni, sem einkenndi störf Alþingis síðustu dagana. Þar að auki hefði bjórinn þurft tvo þriðju hluta atkvæða í sameinuðu þingi. Svo miklum meirihluta hefði hann ekki náð. Þannig hálfdrap efri deild bjórinn.

Ekki tók betra við, þegar málið fór aftur til neðri deildar. Þar tókst engin samvinna meðal stuðningsmanna bjórsins. Ef þeir hefðu allir verið ákveðnir í að ýta bjórnum áfram, hefðu þeir brotið odd af oflæti sínu og fallizt á þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Fyrst voru greidd atkvæði um upphaflega ákvörðun neðri deildar um heimilan bjór og hún var felld. Síðan voru greidd atkvæði um eins konar málamiðlun milli sjónarmiða neðri og efri deildar. Hún var einnig felld. Þá var ekki annað eftir en að fylgja efri deild.

En þá kom í ljós, að einungis tólf þingmanna voru reiðubúnir að ganga svo langt í stuðningi við bjórinn að tryggja honum framhaldslíf í formi þjóðaratkvæðagreiðslu og hugsanlega síðari staðfestingar Alþingis á þeirri niðurstöðu. Þannig féll bjórinn endanlega.

Athyglisvert er, að bjórmálið féll ekki á tíma, eins og andstæðingarnir höfðu teflt upp á. Bjórinn var hreinlega felldur, því að allar þrjár útgáfurnar voru felldar í neðri deild. Ef bjórinn hefði verið felldur á tíma, hefði verið auðveldara að taka hann upp í haust.

Nú stendur Alþingi andspænis því að hafa fellt bjórinn. Það verður því erfiðara að taka málið upp að nýju. Andstæðingar bjórsins, sem nú hrósa frækilegum sigri, munu þá vekja athygli á, að Alþingi sé þegar búið að fella bjórinn. Og hver getur mótmælt því?

Jónas Kristjánsson

DV