Hverjir felldu bjórinn?

Greinar

Margir þingmenn létu í vetur stuðning við bjór í veðri vaka og greiddu honum jafnvel atkvæði á einhverju stigi í meðferð málsins á Alþingi. En í raun stuðluðu þeir að falli hans, þegar að lokastigi kom. Hinir staðföstu bjórvinir reyndust vera í miklum minnihluta.

Í efri deild reyndust þeir einir vera bjórsinnar, sem bæði studdu vilja neðri deildar í orði og höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu á borði. Í neðri deild reyndust þeir einir vera bjórsinnar, sem studdu vilja efri deildar um þjóðaratkvæðagreiðslu, úr því sem þá var komið.

Þetta virðist í fljótu bragði undarleg flokkun. En hún var rækilega rökstudd í leiðara DV í gær. Þar var bent á, að ofangreind afstaða stuðlaði ein að því, að bjórinn kæmist í einhverri mynd fyrir horn í hinu mikla tímahraki, sem einkenndi þingstörfin undir lokin.

Þannig reyndust aðeins sextán af sextíu þingmönnum styðja bjórinn. Tuttugu voru honum kerfisbundið andvígir. Eftir eru 24 þingmenn, sem felldu bjórinn með því að vera fjarverandi, sitja hjá, en einkum þó með því að taka önnur atriði fram yfir sjálft málefnið, bjórinn.

Við getum tekið Eið Guðnason sem dæmi. Hann sagðist styðja bjórinn. Hann greiddi hins vegar atkvæði með málsmeðferð, sem ljóst var að setja mundi allt á annan endann og hindra afgreiðslu málsins fyrir þinghlé. Hann hefur tæpast gengið fram djúpt í dul um þetta.

Eiður vildi ekki, að Íslendingar fengju bjór, nema það væri í samræmi við þá tæknilegu útfærslu málsins, sem hann taldi rétta. Alveg eins og hann vildi ekki að Snæfellingar og Borgnesingar fengju löglegan kapal, nema það væri í samræmi við tæknilega útfærslu Eiðs.

Sennilega hafa sumir neðri deildar þingmenn verið svipaðs sinnis, þeir sem studdu bjórinn í fyrstu atkvæðagreiðslu, en höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu í hinni þriðju. Þeir voru Þorsteinn Pálsson, Páll Dagbjartsson, Eggert Haukdal, Halldór Ásgrímsson og Halldór Blöndal.

Annars vegar er um að ræða neðri deildar menn, sem vildu afgreiðslu Alþingis á málinu og hins vegar efri deildar menn, sem vildu vísa því til óbundinnar skoðanakönnunar, sem þeir kalla þjóðaratkvæðagreiðslu. Og hvorug sérvizkan gat sætt sig við bjór á grundvelli hinnar.

Samtals eru þetta bara sex þingmenn, sem tóku sérvizku sína fram yfir bjórinn. Hinir voru miklu fleiri, sem fengu sér frí, stálust í burtu, sátu hjá eða rugluðu atkvæði sínu á annan hátt en framangreindir þingmenn. Þetta voru þeir, sem engan kjósanda vildu móðga.

Þeir vita, að þjóðin skiptist nokkurn veginn í 60% með bjór og 40% móti bjór. Í fljótu bragði gæti virzt vænlegt þingmanni að leggjast á sveif með fyrri hópnum, þar sem hann er stærri. En þingmenn vita líka, að hættulegt er að vera á móti fjölmennum og ákveðnum minnihluta.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, forseti sameinaðs Alþingis, sagði í blaðaviðtali eftir úrslitin, að hugleysi hefði ekki ráðið þingmönnum í máli þessu. En líklegra er samt, að það hafi einmitt ráðið gerðum hans og hinna sautján, sem engan kjósanda vildu móðga.

Í atkvæðagreiðslum Alþingis kom í ljós, að sextán þingmenn voru eindregið með bjór, tuttugu voru eindregið á móti honum og 24 létu stjórnast af einhverju öðru, svo sem sérvizku sinni eða hræðslu við kjósendur. Þessi flokkun sýnir, að bjórinn hefur sáralítið fylgi á þingi.

Jónas Kristjánsson.

DV