Mismunun eða fjölbreytni.

Greinar

Hinn fyrirhugaði einkaskóli í miðborg Reykjavíkur setur í skarpara ljós ágreininginn milli þeirra, sem telja skólakerfið fyrst og fremst eiga að jafna þjóðina, og hinna, sem telja það nærri eingöngu eiga að mennta hana, en jöfnun eiga að vera á öðrum verksviðum hins opinbera.

Ekki hafa allir aflögu 3.167 krónur á mánuði, 28.500 krónur á ári, til að kosta barn í nýja skólann. Þetta stingur mest í augu þeirra, sem andvígir eru skólanum. Þeir telja þetta vera skref í átt til aukinnar stéttaskiptingar. Börn hinna ríku fái betri menntun en hin.

Engan þarf að undra, að margir séu andvígir því, að ríkidæmi ráði menntun, þegar þeir eru meira að segja andvígir því, að greindum börnum sé sinnt sérstaklega. Það kom fram, þegar Reykjavík hugðist efna til skipulags á sérstakri þjónustu við þessi börn.

Kennarafélag Reykjavíkur neitaði að skipa fulltrúa í stjórn verkefnisins. Einn bæjarfulltrúinn sagði ráðagerðina “nöturlega” og kennari spurði: “Á kannski að kosta gáfnaljósin í skóla?” Því var haldið fram, að verið væri að búa til eins konar yfirstétt.

Hin ríkjandi jöfnunarstefna skólakerfisins, sem hefur lagt áherzlu á að hala nemendur upp í miðju, hefur um leið óbeint lækkað miðjuna niður í fúsk og leiki og óbeint halað nemendur niður í miðju. Undir niðri hefur kraumað gremja margra foreldra vegna þessa.

Nýi skólinn mun virkja þessa gremju. Áhugi foreldra verður meiri úrslitavaldur en peningaráðin, alveg eins og reynslan hefur orðið í Landakotsskóla og Ísaksskóla. Flestir foreldrar, sem vilja, munu finna 3.167 krónurnar, sem þarf mánaðarlega.

Ekki mun gagnrýnin draga úr aðsókninni. Hún felur nefnilega í sér þá skoðun, að nýi skólinn verði betri en hinir gömlu. Í því hlýtur stéttaskiptingin að felast, sem talað er um. Enda er ætlunin að nota hluta 3.167 krónanna til að yfirborga góða kennara.

Sumir mundu sjá í þessu tækifæri fyrir kennarastéttina til að örva samkeppni milli atvinnurekenda sinna um nýtt og hærra mat á kennarastarfinu og að sjálfsögðu meiri tekjur þess. En fyrstu viðbrögð stéttarfélagsstjóra benda ekki til, að þetta ljós verði séð.

Því hefur verið haldið fram, að meiri árangur næðist með því að auka fjárveitingar til opinbera skólakerfisins sem nemur hinum margumtöluðu 3.167 krónum á mánuði. Parkinson gamli væri á allt annarri skoðun, að slíkt mundi bara fjölga leikjum og auka fúskið.

Það bezta við nýja skólann er, að hann fjölgar kostum í skólahaldi. Hann er skref úr einhæfni í átt til fjölbreytni. Hann veitir útrás hugmyndum, sem ekki hafa náð fram að ganga í skólakerfinu. Jafnvel er hugsanlegt, að hann komist í snertingu við atvinnulífið!

Samt má fólk ekki halda, að þessi skóli sé einsdæmi. Fyrir eru í landinu nokkrir einkaskólar, sem keppa við ríkisskólana og hafa kennara á ríkislaunum, en hafa þó sumir skólagjöld að auki. Og svo eru til margir sérskólar, svo sem tölvuskólar, sem eru alveg utan kerfis.

Margir foreldrar kosta börn sín í tölvuskóla eða aðra sérskóla. Í því felst ákveðin mismunun. Hún hvetur þó um leið kerfið sjálft til dáða með því að veita samkeppni. Heildstætt kerfi ber dauðann í sér. En fjölbreytni er leiðin til síbreytni og bezta vörnin gegn kölkun.

Jónas Kristjánsson

DV