Allir græði í skólakerfinu.

Greinar

Menntamálaráðherra og borgarstjóri gera ráð fyrir, að ríki og borg hafi sama kostnað af fyrirhugaða einkaskólanum við Tjörnina og þessir opinberu aðilar hefðu af ríkisskóla. Ekki eru aðeins greidd launin, heldur meðal annars einnig lagt fram húsnæði endurgjaldslaust.

Þetta er nokkru meiri stuðningur en verið hefur við einkaskólana, sem fyrir eru í landinu. Þeir eru yfirleitt reistir eða keyptir á kostnað aðilanna, sem að þeim standa. Að vísu hefur gætt tilhneigingar til að reka þessa skóla eins og hverja aðra ríkisskóla.

Nýi skólinn er tilraun, sem sennilega þarf öflugan stuðning. Ef fleiri slíkir fylgja á eftir, er nauðsynlegt að koma reglu á þáttöku hins opinbera. Gild rök má leiða að því, að sú þáttaka eigi að vera eitthvað minni en greiðsla 100% venjulegs skólakostnaðar.

Á mörgum sviðum felur ríkið einkaaðilum framkvæmd mála, ekki af ást á einkageiranum, heldur til að græða á því. Vegagerðin býður út framkvæmdir, af því að hún gerir ráð fyrir, að lægstu tilboð séu nokkuð undir kostnaðaráætlun. Þannig má framkvæma meira fyrir sama fé.

Að baki liggur lögmálið um, að einkarekstur sá að jafnaði nokkru hagkvæmari en opinber rekstur. Annars væri takmörkuð ástæða fyrir afhendingu opinberrar starfsemi í hendur einkaaðila, nema þá til að auka fjölbreytnina, sem út af fyrir sig er eftirsóknarverð.

Þótt fjölbreytnin sé höfð í huga, er engin ástæða fyrir ríki og bæ að nota ekki tækifærið á sama hátt og vegagerðin og hafa dálítinn hagnað í leiðinni. Hinir opinberu aðilar geta til dæmis gizkað á, að einkarekstur skóla sé 20% hagkvæmari en ríkisrekstur og greitt samkvæmt því.

Ef frá er skilinn tannlækna- og ýmis yfirstjórnarkostnaður, má slá fram, að hvert barn í grunnskóla í Reykjavík kostið ríkið 45 þúsund krónur á ári og borgina 15 þúsund krónur. Er þá stofukostnaður húsnæðis, sem skiptist að jöfnu, metinn á 10 þúsund krónur.

Ef gert er ráð fyrir, að ríki og borg greiði 80%, en ekki 100% af þessum kostnaði við einkaskóla, sparar það sér níu þúsund krónur á ári og borgin þrjú þúsund. Ef annað hvert barn í Reykjavík væri í einkaskóla, spöruðu þessir aðilar 72 milljónir króna á ári.

Þetta fé, 54 milljónir hjá ríkinu og 18 milljónir hjá borginni, mætti nota til að koma ýmsu í verk í skólamálum, sem hið opinbera telur sig ekki hafa ráð á. Þetta eru að vísu ónákvæmar tölur, en ættu þá að vera nokkurn veginn af réttri stærðargráðu.

Ef gert er ráð fyrir, að einkaskóli næði ekki þeim ráðgerða mun í hagkvæmni, heldur væri að því leyti eins og opinber skóli, mundu foreldrar þurfa að borga 12 þúsund krónur á barn á ári eða eitt þúsund krónur á mánuði sem eins konar startgjald fyrir þáttöku í einkaskóla.

Síðan gætu einkaskólarnir haft eitthvert skólagjald umfram þetta til að geta boðið upp á betri skóla en gengur og gerist. Þar með ættu allir málsaðilar, hið opinbera, einkaskólarnir, foreldarnir og börnin að geta fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Slík er fegurð markaðskerfisins.

Áhugi á fjölbreytni einn er auðvitað nægileg forsenda þess, að gerð sé tilraun með nýjan einkaskóla. Bezt er þá að haga málum þannig, að allir græði á markaðstorgi skólakerfisins og að fjármagn verði aflögu til að gera fleira í þeim efnum en nú er gert. Líka fyrir þá, sem ekki komast í einkaskóla.

Jónas Kristjánsson.

DV