Jón og Jóhannes gjaldþrota

Greinar

Þjóðhagsstofnun gladdi nýlega Morgunblaðið með upplýsingum um, að erlendar skuldir væru að lækka úr 63% af þjóðarframleiðslu niður fyrir 60%. Stafar þetta af nýrri aðferð við að reikna skuldirnar! Slíkt bókhald þykir fremur hagkvæmt á tíma hækkandi þjóðarskulda.

Þjóðhagsstofnun einskorðar sig ekki við bókhaldsæfingar af ofangreindu tagi. Hún stundar líka athyglisverðan dans milli íslenzkrar og enskrar tungu. Hún snarar árlegri efnahagsskýrslu sinni yfir á alþjóðamálið og sendir efnahagssamvinnustofnuninni OECD.

Þar fær skýrslan stimpil hins heilaga sannleika og er send hingað aftur til þýðingar í fjölmiðlum. Við fáum að vita, hvað Jón Sigurðsson og Jóhannes Nordal telja vera okkur fyrir beztu, klætt í ópersónulegan og hlutlausan búning fjölþjóðlegrar stofnunar.

Margir halda, að innihaldið sé eins konar hagfræði, en það er misskilningur. Innihaldið er stefnuskrá stjórnmálaflokksins Jón og Jóhannes, atkvæðamesta stjórnmálaflokksins hér á landi. Sumpart stangast þessi pólitík á við heilbrigða hugsun í hagfræði.

Jón og Jóhannes hafa á heilanum, að gengi krónunnar þurfi að vera stöðugt. Þeir þreytast aldrei á að berja þetta inn, með og án gæðastimpils OECD. Engin pólitísk stefna hefur leitt til meiri fátæktar þjóðarinnar en einmitt þessi þráhyggja þeirra félaga.

Stjórnmálaflokkurinn Jón og Jóhannes bendir á, að verðbólga muni aukast við lækkun á gengi krónunnar. Þar á ofan læða þeir inn, að sum útgerð sé svo illa farin af erlendum dollaraskuldum, að gengislækkun fái ekki bjargað henni. Og þessu trúa menn unnvörpum.

Hin hagfræðilega staðreynd er allt önnur. Hún er sú, að alls staðar reynist þjóðum gróðavænlegt að hafa gengi gjaldmiðils síns sem lægst skráð eða hreinlega frjálst. Japanir stunda það kerfisbundið. Nýsjálendingar og Svíar gerðu nýlega skurk í þessu.

Hér á landi er ofskráning Jóns og Jóhannesar á gengi krónunnar notuð til að flytja peninga frá stóriðju sjávarútvegsins. Hornsteini þjóðfélagsins er haldið í úlfakreppu til að halda uppi fjölbreyttri vitleysu, þar sem landbúnaður trónar hæst á stalli.

Eitt brýnasta verkefni íslenzkra stjórnmálaflokka er að losna undan ægivaldi Jóns og Jóhannesar og bjóða þjóðinni upp á þá nauðsynlegu röskun, sem felst í að losa um gengið. Án þeirrar röskunar höldum við áfram að lifa í afar dýrkeyptum draumaheimi.

Gengi krónunnar má lækka eða gefa það frjálst eða hreinlega leggja það niður. Með einhverjum slíkum hætti verður þjóðin að komast að raun um, hvað hlutirnir kosta í raunverulegum verðmætum, en ekki í bókhaldsreikningi, sem byggist á núllrekstri sjávarútvegs.

Sjávarsíðan mun fyrr eða síðar gera uppreisn gegn Jóni og Jóhannesi. Ýmis teikn eru á lofti um, að fólkið á fiskiskipunum og í frystihúsunum sé að átta sig á, að eitthvað sé meira en lítið bogið við kerfi, sem skilur það eftir úti í kuldanum.

Fastgengisstefna Jóns og Jóhannesar hefur enga hagfræði að baki sér. Hún er gjaldþrota pólitík, síðustu leifar Eysteinskunnar. Aðrar þjóðir hafa hafnað henni og við eigum að gera það líka. Bókhaldsæfingar geta ekki endalaust komið í staðinn fyrir kaldan raunveruleika.

Jónas Kristjánsson

DV