Lág laun og mikið tap.

Greinar

Fiskiðnaðurinn er ekki lengur hæfur til að keppa um vinnuafl landsmanna. Talið er, að þar vanti til starfa um 1500 manns. Þetta fólk leitar í betri kjör og þægilegri vinnuskilyrði, sem bjóðast á öðrum sviðum. Ástand þetta hefur hríðversnað að undanförnu.

Fiskveiðarnar geta enn fengið fólk til starfa. En þar kemur á móti, að afkoma útgerðarinnar er mun lakari en húsanna í landi. Með lágum launum í fiskvinnslu hefur verið hægt að halda tapinu í 1%. Útgerðin er hins vegar í ógnartapi, sem metið hefur verið á 7%.

Tap útgerðarinnar og fólksflóttinn úr fiskiðnaði segja sömu söguna. Hornsteinn þjóðfélagsins er sprunginn. Dag hvern rýrnar eigið fé sjávarútvegsins í heild um þrjár til fjórar milljónir. Dag hvern gerir sjávarútvegurinn hliðstæða atrennu að fjármagni lánastofnana.

Margt hefur stuðlað að þessari óheillaþróun. Verðmæti sjávaraflans hefur minnkað. Olíuverð hefur verið hátt. Við höfum dregizt aftur úr í tækni, einkum í fiskvinnslunni. Við búum við of lítinn mun á fiskverði eftir gæðum. Og við samræmum illa veiðar og vinnslu.

Veigamesta orsökin er þó fastgengisstefnan, sem hefur verið rekin af óvenjulegri hörku í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hún hefur minnkun verðbólgu að höfuðmarkmiði og má ekki heyra nefnt neitt, sem gæti hlaupið út í verðlagið eins og gengislækkun hlýtur að gera.

Sigrar í verðbólgustríði, sem felast í hinni auðveldu baráttuaðferð að senda sjávarútveginum reikninginn, hljóta að teljast tvíeggjaðir. Gengisfölsun er ekki minna vandamál en verðbólga. Hún drepur ekki bara sjávarútveginn, heldur eykur líka skuldasöfnun þjóðarinnar.

Bezt væri að losa ráðamenn þjóðarinnar og efnahagsráðunauta hennar við freistingu fastgengisstefnunnar, svo að þeir geti einbeitt sér að raunhæfum bardaga við verðbólguna. Það má gera með því að láta markaðsöflin í stað Seðlabankans ákveða gengi krónunnar.

Þá kæmi í ljós, fyrir hversu margar krónur notendur gjaldeyris vildu kaupa hann af framleiðendum gjaldeyris. Þá kæmi í ljós, hvort sjávarútvegurinn sé sá ræfill, sem hann virðist vera. Þá kæmi í ljós, hversu mikið af vörum við höfum ráð á að flytja til landsins.

Útsalan á gjaldeyri veldur því, að erlendar vörur verða óeðlilega ódýrar. Of mikið er keypt af þeim og við söfnum skuldum í útlöndum. Skuldafjallið er hitt stóra vandamálið í þjóðfélaginu. Frjálst gengi lækkar það fjall um leið og það læknar mein sjávarútvegsins.

Auðvitað kæmi í ljós, að stjórnmálamenn hefðu ekki lengur efni á margvíslegri óráðsíu og gæludýrahaldi. Það eru þeir einmitt hræddir við. Einnig kæmi í ljós, að lífskjör mundu staðna eða rýrna í öðrum greinum en sjávarútvegi. Það eru þeir líka hræddir við.

Milda má þessa röskun með því að bæta rekstur sjávarútvegsins á annan hátt. Ekki er nógu gott, að afköst í frystihúsum séu, þrátt fyrir bónusþrælkun, helmingi minni en í Danmörku, meðal annars vegna skorts á tækni við ýmsar tilfæringar. Og svo má auka sölu á ferskfiski.

Verðmyndun á fiski upp úr sjó er dæmi um ofskipulag, sem minnir á fastgengisstefnuna. Með meira eða minna opinberu skipulagi er hafður of lítill verðmunur á góðum fiski og lélegum. Möguleikar á bættum hag sjávarútvegs eru því margir, en veigamest er þó frjálsa gengið.

Jónas Kristjánsson.

DV