Ræður og fundir

Fréttir
Ræður og fundir

1) Sögur af ræðum hafa að geyma nafn og starf ræðumanns, efni ræðunnar, stað hennar og nóg af tilvitnunum.
2) Sögur af blaðamannafundum byrja á meginatriði ræðumannsins, sema annað betra hafi komið upp.
3) Sögur af fundum byrja venjulega á mikilvægustu samþykktinni. Þær fela í sér tilgang fundarins, bakgrunni samþykktarinnar og tilvitnanir í fólk, sem talaði á fundinum.

Ræður eru ekki mest spennandi efni blaðamanns, en samt umtalsverður hluti af hversdagslegu starfi hans. Ræður geta komið á óvart. Dæmi um ræðu Betty Ford á söfnunarfundi á New York Hilton.

Haft eftir Eula Bingham: “Þrjár mestu lygarnar eru þessar:
1) Tékkinn er í pósti.
2) Elskan, ég hef ekki litið á aðra konu í 27 ár.
3) Ég er frá stjórnarráðinu og er kominn til að veita þér aðstoð.”

Sagan um ræðuna felur í sér:
1) Hvað var sagt. Aðalpunktur ræðunnar.
2) Hver sagði það. Nafn og starf.
3) Staður og tilgangur ræðunnar.
4) Óvænt atriði.

Ef blaðamaðurinn er ekki viss um aðalefni ræðunnar, borgar sig að spyrja ræðumanninn á eftir. Með efni úr ræðunni og viðtalinu þarf blaðamaðurinn þó að greina sundur, hvað er úr hverju.

Stundum finnur blaðamaðurinn meginatriði, sem ræðumaður taldi vera hliðaratriði. Þá getur blaðamaðurinn haft nýja atriðið efst, en komið meginatriði ræðumannsins að ofarlega í greininni. Ekki byrja á tilvitnun, nema í undantekningum.

Hvað á að gera, þegar maður er búinn að sitja undir sundurlausri og óljósri ræðu. Lesendur munu kenna blaðamanninum um það. Hann verður að ná taki á ræðumanni og fá hann til að útskýra málið. Annars skrifar blaðamaðurinn bara örstutta sögu.

John R. Hunt: “Dauf og leiðinleg ræða getur verið efni í áhugaverða grein. En ég veit ekkert erfiðara en að segja frá gamansamri ræðu.” Besta leiðin er að nota nóg af tilvitnunum og vonast til, að gamansemin skíni í gegn.

Blaðamenn mega vera á ýmsum fundum og nota það, sem þeir sjá og heyra. En þeir mega ekki vera á öðrum fundum og verða þá að fara, ef þess er óskað. Blaðamaður þarf ekki að taka afturvirkt mark á ósk um, að ummælum sé haldið leyndum.

Stefna Washington Post: Ef ræðumaður reynir að segja ræðu sína offtherecord, verður blaðamaðurinn að standa upp og mótmæla og segja, að opinn fundur þýði opnar ræður og að hann muni ekki virða þessa kröfu ræðumannsins.

Reglur Phoebe Zerwick hjá WinstonSalem Journal:
1) Lestu úrklippurnar áður.
2) Fáðu dagskrána fyrirfram.
3) Skrifaðu spurningar.
4) Taktu eftir óvæntum atriðum.
5) Hugsaðu um áhrifin á almenning.

Tékklisti um fundi:
1) Verkefni fundar: Atkvæðagreiðslur, ákvarðanir, stefnumörkun.
2) Tilgangur, tími og staður fundarins.
3) Atriði á dagskrá.
4) Umræður. Lengd fundarins.
5) Tilvitnanir í vitni og sérfræðinga.
6) Ummæli áheyrenda, valdhafa og þeirra, sem niðurstaðan hefur áhrif á.
7) Bakgrunnur
8) Óvænt frávik frá dagskrá.
9) Dagskrá næsta fundar.

Stundum heldur fundurinn áfram fram yfir lokatíma fjölmiðilsins og blaðamaðurinn verður að fara með það, sem hann er búinn að fá. Hann hefur samt oftast náð stemmningu fundarins.

Blaðamannafundur gerir einstaklingi, hópi eða stofnun kleift að ná til margra blaðamanna í senn með yfirlýsingu, sem vekur meiri athygli en fréttatilkynning vegna myndatækifæra og sviðsetningar.

Blaðamannafundir eru virk og hagkvæm leið fyrir miðla að ná í fréttnæmt efni. (Hér á landi er þó almennt talið varða við tímasóun að sækja langa fundi af þessu tagi.)

Venjulega hefst blaðamannafundur með ávarpi eða með dreifingu fréttatilkynningar eða með hvoru tveggja. Síðan eru spurningar og svör.

Hjá verkefnastjórum hleðst upp mikið af fréttatilkynningum og þar hlaðast upp miklar óskir um mætingar á fréttamanafundi. Flestu slíku er hafnað af því, að þetta eru óbeinar auglýsingar og af því að ekki er pláss fyrir slíkt.

Sá, sem getur náð hópi blaðamanna og fréttamanna með upptökutæki og myndavélar á fund með sér, er sigurvegari í hópi almannatengla. Fréttamannafundir höfða misjafnlega mikið til tegunda fjölmiðla eftir efnum og ástæðum.

Fréttamannafundir byrja yfirleitt á inngangi fundarboðanda og síðan koma spurningar og svör. Þaðan koma yfirleitt bestu hljóðbitarnir. Fréttamaðurinn er með skeiðklukku til að merkja við, þegar góðir hljóðbitar koma.

Margir fréttamenn vilja taka sérstakt viðtal við fundarboðandann. Stundum er það gert á undan fundinum, sem verður óþægilegt, þegar viðtalinu seinkar og hinir fara að mæta á fundinn. Algengast er, að slík viðtöl séu haldin eftir fundinn.

Þeir, sem skoðað hafa spurningar á blaðamannafundum, telja þær oft sýna skort á viðtalstækni, t.d. spurningar í Hvíta húsinu. Allt of margar spurningar eru settar þannig fram, að þær gefa fundarboðanda tækifæri til að þyrla upp ryki.

Tvöfaldar spurningar gefa fundarboðanda tækifæri til að sleppa að svara annarri spurningunni. Já og nei spurningar eru heldur ekki góðar, gulltrygg aðferð við að setja stans í samtalið. Bestar eru spurningar: Hvernig, hvers vegna, hvað?

Opnir stjórnarfundir, t.d. sveitarstjórnar eru oftast langdregnir. Myndatökumaðurinn fær reynslu af hugboðum um, hvenær á að seta myndavélina í gang rétt fyrir hljóðbita. Best er að fá fólk úti í bæ til að tjá sig um málin.

Allt of algengar eru sjónvarpsfrétttir, þar sem fréttamaðurinn talar allan tímann, sést sjálfur fyrst í mynd og síðan einstakir sveitarstjórnarmenn, allir í hlutlausum gír að hlusta. Þegar engir hljóðbitar eru, þá er slík frétt léleg.

Fréttamaður, sem fer á slíkan fund, þarf áður að komast að, hvað se til umræðu og geta valið áhugaverðasta viðfangsefnið eða það, sem hentar best til myndatöku. Áður en fundurinn hefst getur hann farið á svæðið, myndað og talað við íbúa.

Kosningabarátta: Verkefnastjórar og framleiðendur spyrja fréttamann ekki um stjórnmálaskoðun hans, þegar hann er sendur í frétt um frambjóðanda. Til þess er ætlast, að menntaður og þjálfaður blaðamaður haldi fordómum utan við fréttir.

Stundum er hætta á, að fréttamenn tengist einum frambjóðanda of mikið og fari að telja sig hafa metnað af, að hann nái kjöri. Fréttamenn verða alltaf að muna, að þeir eru að vinna fyrir áhorfendur.

Bernard Shaw telur, að stöðvar vilji ekki stinga í neikvæðar áróðursauglýsingar framboða til að vernda tekjupóstinn. Hann telur ekki eðlilegt, að fréttastofur skuli ekki rannsaka neikvæðar fullyrðingar í auglýsingum og taka á þeim.

Shaw vill sannleikann í fréttir: “Tom Harkin, frambjóðandi demókrata, þótti svo mikið koma til kjósenda í San Jose, að hann stansaði í 22 mínútur á flugvellinum í dag á leið til fundar í Los Angeles. Hann sagði ekkert nýtt á vellinum.”

Shaw segir líka, að fréttamenn geri allt of lítið að benda á, að frambjóðandi hafi vikið sér undan að svara tilgreindum spurningum um mikilvæg mál. Hann segir kominn tíma til að stöðva misnotkun stjórnmálamanna á fréttamiðlum.

Tékklisti um blaðamannafundi:
1) Aðalpunktur ræðumannsins.
2) Nafn og starf ræðumannsins.
3) Tilgangur, tími, staður og lengd fundarins.
4) Bakgrunnur mikilvægs atriðis.
5) Meginatriði í yfirlýsingu, í svörum við spurningum.
6) Afleiðingar yfirlýsingarinnar

Í panilumræðum er fjöldi ræðumanna oft vandamál fyrir blaðamann. Reyndir blaðamenn klóra sig í gegnum það. Þeir finna þema, sem er sameiginlegt mörgum eða öllum ræðumönnum og semja inngang, sem byggist á því þema. Dæmi:

“Fjórir hæstaréttarlögmenn voru í gærkvöldi sammála um, að skilorðsbinding sé ekki lengur nothæf aðferð til að ráða við dæmda glæpamenn. Þótt þeir væru ósammála um flest, voru þeir sammála um þetta.”

Þegar einn maður í panil segir greinilega eitthvað, sem er áhugaverðara og mikilvægara en það, sem hinir segja, á það fréttnæma atriði að fara í innganginn, fremur en almenn lýsing á yfirlýsingum í panilnum.

Almennar reglur:
1) Finndu málefnið. Titillinn getur bent til þess.
2) Finndu tilganginn. Venjulega er ræðumaður að reyna að segja fréttir, útskýra eða sannfæra, oft allt þrennt í senn.
3) Finndu meginpunktinn. Hann fer í innganginn hjá þér.
4) Safnaðu röksemdunum fyrir meginpunktinum. Þær fara í meginefni sögunnar.
5) Mundu, að allt þetta eru töluð orð. Notaðu nóg af tilvitnunum.
6) Mættu snemma, þá er hægt að tala við málsaðila og fá tilfinningu fyrir því, sem á eftir fer.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé