Slípaður sóknarkvóti.

Greinar

Kunn er sagan af drykkjumanninum, sem að ráði læknis átti að halda drykkju sinni innan ákveðinna marka. Þetta gekk svo sem ágætlega að öðru leyti en því, að drykkjumaðurinn er byrjaður á kvóta ársins 1997. Þessi aðferð drykkjumannsins er nú til alvarlegrar umræðu í sjávarútveginum.

Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra hefur gefið upp boltann með því að missa út úr sér, að hugsanlega megi á þessu ári veiða eitthvað upp í kvóta næsta árs. Ef af því verður, má búast við, að sumir verði í maí næstkomandi búnir með kvóta ársins og byrjaðir að væla aftur.

Hugmynd Halldórs er kjörin aðferð við að heiðra skálkinn og refsa þeim, sem fara að með gát. Skálkarnir eru búnir að stunda berserksgang í aflahrotunni í sumar. Þeir hafa mokað upp fiski í verðlitla vinnslu. Þeir hafa lokið kvóta sínum og heimta nú að vera verðlaunaðir.

Eini kosturinn við hugmyndina er, að hún hefur opnað fyrir nýja umræðu um kosti og galla aflakvótakerfisins. Þetta kerfi var samþykkt með semingi fyrir tæpu ári. Síðan hafa menn möglað og muldrað, en í stórum dráttum hefur ráðherra haft frið. Sá friður er nú úti.

Í rauninni hefur kvótinn haft fáa aðra kosti en þennan frið. Að flestu öðru leyti hefur hann reynzt verulega gallaður. Til dæmis hefur hann ekki megnað að halda aflamagni niðri við það mark, sem hæfilegt er að mati fiskifræðinga. Bæði í fyrra og í ár er aflinn langtum meiri.

Kvótinn hefur líka leitt til, að smáfiski hefur verið hent fyrir borð, svo að hann íþyngdi ekki kvóta skipsins. En auðvitað er sá fiskur jafndauður fyrir það. Ennfremur hefur kerfið flutt völd til sjávarútvegsráðuneytisins og gert ráðherra að eins konar einræðisherra.

Kvótakerfið hefði orðið mun farsælla, ef það hefði heimilað frjálsa sölu á kvótum til að færa sóknina frá lélegri útgerð yfir til arðbærrar útgerðar og fækka skipum. Því miður hefur áherzlan verið gagnstæð, reynt að hamla sem mest gegn flutningi kvóta milli skipa.

Versti galli kvótakerfisins er, að það frystir aflann í þeim hlutföllum, sem verið hafa. Þeir, sem ættu að hætta veiðum, halda þeim áfram. Og hinir, sem ættu að koma til skjalanna, fá það ekki. Sem heild er sjávarútvegurinn frystur í þeim hlutföllum, sem voru fyrir tveimur árum.

Um leið hindrar kvótakerfið lausn á mesta vanda sjávarútvegsins, of miklum fiskiskipastól. Flestir voru sammála um, að skipin væru allt of mörg, þegar kvótakerfið var tekið í notkun. Þetta dýra og óarðbæra ástand hefur verið fryst með kerfinu, sem nú er að springa.

En það er ekki nóg að vera á móti þessu kerfi. Mestu máli skiptir að benda á betri leiðir. Fráleitar eru hugmyndir um, að skálkar fái að taka út kvóta næsta árs og að kvóti þessa árs verði stækkaður til heiðurs skálkunum. Því miður eru þær helzt til umræðu núna.

Betra væri að hafa kvótann óbreyttan til áramóta og taka þá upp nýtt kerfi. Bent hefur verið á, að ýmsir kostir hafi verið fólgnir í skrapdagakerfinu, öðru nafni sóknarkvótanum, sem var í gildi til ársloka 1983. Hugsanlegt væri að taka það upp í slípaðri mynd.

Bezt væri að haga sóknarkvóta á þann hátt, að ríkið byði út sóknartækifærin og seldi þeim, sem hæst byðu. Þar með væri unnt að grisja út sumt af lélegustu útgerðinni og veita hinni frelsi til að haga veiðunum skrapdagalítið á sem arðbærastan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV