Tímabært er orðið, að Ísland segi sig úr Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Á aðalfundi stofnunarinnar í Sofiu hefur komið í ljós, að ekki eru horfur á umtalsverðri siðvæðingu þessarar ömurlegu stofnunar, þrátt fyrir úrsagnir, aðvaranir og aðra viðleitni.
Dæmigert fyrir neyðarástandið í Unesco er, að framkvæmdastjórn hennar fékk ekki að ræða einu gagnrýnu endurskoðunina á fjárreiðum stofnunarinnar, þá sem framkvæmd var af ríkisendurskoðun Bandaríkjanna, þar sem fram kemur, að þrjár krónur af hverjum fjórum fara í sukk í París.
Íslenzki fulltrúinn hjá Unesco hefur fengið nægilegt tækifæri til að komast að raun um, að breytinga er ekki að vænta. Hann hefur sjálfur setið í framkvæmdastjórninni fyrir hönd Norðurlandanna og axlað hluta ábyrgðarinnar á rekstri og stefnu stofnunarinnar.
Unesco hefur um skeið verið stjórnað og verður áfram stjórnað af samtökum umboðslausra harðstjóra í þriðja heiminum. Þessi samtök njóta stuðnings olíufursta og ráðamanna Sovétblakkarinnar. Þau vinna markvisst að beitingu stofnunarinnar gegn mannréttindum.
Hinir umboðslausu harðstjórar þriðja heimsins vilja fá að kúga þjóðir sínar í friði. Þeir hafna flutningi frétta af gerðum sínum og aðgerðaleysi. Þeir vilja hafa fjölmiðla að áróðurstækjum til stuðnings völdum sínum. Og þeim hefur tekizt það í flestum ríkjum heims.
Unesco hefur mjög verið beitt í máli þessu. Ályktanir og pappírsgögn stofnunarinnar hafa verið notuð til að hefta upplýsingaflæði í löndum harðstjóranna, til þeirra og frá þeim. Þau hafa verið notuð til að koma á skráningu blaðamanna og ritskoðun fjölmiðla.
Áherzlan í Unesco hefur flutzt frá mannréttindum almennings til réttinda harðstjóra til að ákveða sjálfir, hvað þjóni hagsmunum uppbyggingarinnar í löndum þeirra. Í reyndinni felast ákvarðanir þeirra í morðum og misþyrmingum, fangelsunum og fjárstuldi.
Gagnrýnin á Unesco hefur jöfnum höndum beinzt að kúgunarstefnu stofnunarinnar og svínaríinu í rekstri hennar. Þar við bætist svo persóna forstjórans, M’Bow, sem hagar sér eins og hann sé keisari í Senegal og hefur safnað um sig hirð gagnslausra skriðdýra.
Ljóst er, að engra endurbóta er að vænta á valdatíma M’Bow. Ennfremur er öruggt, að hann fer ekki frá völdum í náinni framtíð, því að hann gætir hagsmuna harðstjóranna, sem hafa tögl og hagldir í stofnuninni. Vonir um annað eru aðeins sjálfsblekking.
Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra hefur verið spillt með ýmsum hætti á undanförnum árum. Þær hafa fjarlægzt hugsjónirnar, sem réðu í upphafi. Engin þessara stofnana er þó eins djúpt sokkin og Unesco. Hún er því verðugt tilefni úrsagnar, öðrum til aðvörunar.
Bandaríkin yfirgáfu Unesco fyrir tæpu ári. Þá lýsti Bretland yfir úrsögn, sem kemur til framkvæmda um næstu áramót. Í erlendum fjölmiðlum hefur Ísland verið nefnt í hópi nokkurra ríkja, Danmerkur, Kanada og Japans, sem væru um það bil að gefast upp á aðildinni.
Því miður gaf ráðherraræðan, sem flutt var fyrir Íslands hönd á aðalfundinum í Sofiu. ekki miklar vonir um einbeitni af Íslands hálfu. Litlar horfur eru á, að Ísland hafni með úrsögn að bera frekari ábyrgð á fjármálaóreiðu Unesco og atlögu stofnunarinnar að mannréttindum í þriðja heiminum.
Jónas Kristjánsson
DV