Annar minnisvarði.

Greinar

Barizt hefur verið fyrir frjálsu gengi í leiðurum þessa dagblaðs og forvera þess í hálfan annan áratug. Ríkisstjórnir hafa ekki tekið mark á þessu. Sú, sem nú situr, rekur krampakennda fastgengisstefnu. En í útgerð og fiskvinnslu er fólk farið að hlusta.

Á nýliðnum aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva var sett fram krafa um, að skráning gengis krónunnar verði miðuð við útflutningsgreinar. Enn fremur var þar sagt, að sífellt háværari raddir um frjálst markaðsverð á gjaldeyri verði ekki lengur kveðnar niður.

Áður hafði Landssamband íslenzkra útvegsmanna samþykkt að óska þess, að gjaldeyrisverzlun verði gefin frjáls. Þannig eru hagsmunaaðilar smám saman að missa trú á skottulækna, sem hafa sagt sjávarútveginum, að lækkað gengi komi honum ekki að gagni vegna erlendra skulda hans.

Meira að segja forsætisráðherra gaf í haust þessa játningu: “Við höfum haldið svo stíft á genginu, að það er gagnrýnivert.” En ríkisstjórn hans telur samt nauðsynlegt að halda dauðahaldi í skráninguna til að auðvelda sér baráttu við víxlhækkanir á vísitölum.

Ríkisstjórnin bætir síðan eins og aðrar fyrri gráu ofan á svart með því að hafa aðdraganda gengislækkunar svo langan og stökkin svo stór, að spákaupmennska eyðir árangri, sem hefur náðst á öðrum sviðum. Í fyrra var til dæmis eytt í einu vetfangi sparnaði ársins vegna jákvæðra vaxta.

Enginn neitar lengur, að lægra gengi krónunnar sé áhrifaríkasta aðgerðin til að eyða halla á viðskiptum Íslands við útlönd og eyða söfnun skulda í útlöndum. Og nú er svo komið, að jafnvel ráðherrar telja vera sitt brýnasta verkefni að hafa hemil á skuldasúpunni.

Auðvitað fylgja vandamál hinu lægra gengi. Skilað er til baka til sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina fjármunum, sem hafa haldið uppi velgengni í öðrum greinum. Minna verður til ráðstöfunar til að halda uppi hefðbundnum landbúnaði og lífskjörum utan sjávarútvegs.

En svo mjög hafa aukizt skuldir okkar í útlöndum, að skilningur fer ört vaxandi á, að útsölu á erlendum gjaldeyri verður að linna, þótt hún komi mörgum vel. Þjóðin hefur ekki lengur efni á fastgengisstefnu, sem leiðir til gífurlegrar sóknar í gjaldeyri.

Einn minnisvarði stendur eftir ríkisstjórnina. Hún hefur losað um vextina í landinu og búið til raunvexti. Þetta hefur stóraukið sparifé í bönkum. Jafnvægi á þó langt í land, enda tekur tíma að lækna afleiðingar áratuga ofbeldis hins opinbera gegn sparnaði í landinu.

Svo traustir eru raunvextir orðnir í sessi, að formenn stjórnarflokkanna eru farnir að gæla við hugmyndir um að skattleggja hinn jákvæða hluta vaxtanna, þann sem er umfram verðbólgu. Slíkar hugrenningar benda til, að jákvæðu vöxtunum verði leyft að lifa – sem tekjustofn!

Ríkisstjórnin mundi reisa sér annan minnisvarða jafnmerkan, ef hún losaði um gengi gjaldeyris. Fljótt kæmi í ljós, að lækningamáttur slíks framtaks er ekki síður undraverður en hinna frjálsu vaxta. Og mundu ekki allir fagna stöðvun skuldasöfnunar í útlöndum?

Alveg eins og æskilegt er að nálgast jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar lánsfjár, þá er æskilegt að nálgast jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar gjaldeyris. Í báðum tilvikum gerist það með því að leyfa markaðinum að ákveða kjörin á sjálfvirkan hátt, án opinberra afskipta.

Jónas Kristjánsson

DV