Léleg rök gegn markaðsgengi.

Greinar

Andúðin á markaðsskráningu erlends gjaldeyris, sem greinilega kemur fram hjá ríkisstjórninni og ráðgjöfum hennar úr Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun, stafar af þreytu, en ekki af efnisatriðum málsins. Þessum aðilum finnst þægilegt að geta vísað vandanum til sjávarútvegsins.

Ríkisstjórnin og ráðgjafar hennar treysta sér ekki í átökin, sem fylgja nýrri skiptingu þjóðarkökunnar. Erfiður og árangurslitill slagur við verðbólgu hefur dregið mátt úr ríkisstjórninni. Hún hefur reynt að sýna hetjuskap og orðið móð af sárum. Hún er gömul og þreytt.

Enn er reynt að telja sjávarútveginum trú um, að hann skuldi svo mikið, að rétt gengi komi honum ekki að gagni. Röksemdafærslan er ekki upp á marga fiska, en felur í sér þann sannleika, að vonlaus er vondur rekstur, sem hefur dollaralán á bakinu.

Meðaltölin segja allt annað. Erlendur rekstrarkostnaður í sjávarútvegi er 25% af tekjum hans og erlendur fjármagnskostnaður 14%. Samtals er þetta rétt innan við 40% af tekjum sjávarútvegs. Aðeins þessi hluti gjalda er beint tengdur tekjum í gjaldeyri.

Meirihluti útgjalda sjávarútvegsins felst í lífskjörum starfsfólks og öðrum innlendum kostnaði. Þessi útgjöld eru aðeins að hluta og óbeint tengd gengi erlends gjaldeyris. Þessa staðreynd hafa stjórnvöld játað í hvert sinn, sem þau hafa breytt genginu.

Við gengislækkun batnar samkeppnisaðstaða vöru og þjónustu í hlutfalli við innlent vinnsluvirði hennar, þann hluta verðmætisins, sem er innlendur að uppruna. Kaupendur bæta sér upp hluta gengislækkunarinnar með því að beina viðskiptum sínum meira að slíkri vöru og þjónustu.

Þessi tilfærsla veldur því, að neytendur, þar með talið starfsfólk í sjávarútvegi, þurfa ekki að berjast fyrir að fá gengislækkun bætta til fulls heldur aðeins upp að þeim mun, sem eftir stendur. Þessi tilfærsla hefur komið að gagni við hverja gengislækkun.

Ekki er nóg með, að innlend framleiðsla eflist á kostnað innfluttrar, heldur eflist líka innlendur sparnaður á kostnað nýrra lána í útlöndum. Gengislækkun gerir fjárfestingu í útlendri vöru óhagstæða í samanburði við innlenda vöru og innlendan sparnað.

Gengislækkanir liðins tíma og þar á meðal sú í fyrra hafa nýtzt of illa að þessu leyti. Ríkisstjórnir hafa haft að þeim allt of langan aðdraganda, svo að spákaupmennska hefur eyðilagt árangurinn að verulegu leyti. Þess vegna er markaðsgengi betra en gengislækkanir.

Ennfremur hafa ríkisstjórnir vikið sér undan ábyrgð og fyrirhöfn með því að taka lán í útlöndum, hreinlega til að halda uppi lifnaði um efni fram. Þessi gjaldeyrir í formi lána er auðvitað í samkeppni við gjaldeyrinn, sem sjávarútvegurinn aflar.

Ríkisstjórnir geta eytt árangri gengislækkana með lántökum í útlöndum. En það er lítill hetjuskapur ráðherra að hóta sjávarútveginum slíku. Það er ekkert markaðslögmál, að ríkisstjórn þurfi að kikna í hnjáliðunum í hvert sinn, sem hún lendir í öðrum vanda en tapi í sjávarútvegi.

Ekki er síður aumlegt, þegar ráðherrar og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar halda fram, að hið skráða gengi fari í raun nálægt markaðsgengi. Af hverju megum við ekki fá að sjá, hvort þetta er blekkisögn á léleg spil, sögð til að slá ryki í augu sjávarútvegsins?

Jónas Kristjánsson

DV