Þegar glærufræðingar taka við stjórn á fjölmiðlum, sjá þeir fljótt, að fín fréttamennska er dýr. Þeir losa sig því við dýra fréttahauka og tímafrekan fréttagröft. Ráða ódýr fréttabörn í staðinn. Afleiðingarnar höfum við séð í tvo áratugi. Hefðbundnir fjölmiðlar grotna niður í kranaviðtöl og klipp & lím áróðurs frá sérhagsmunum á vondri íslenzku. Notendur fjölmiðla venjast bulli, sem stríðir gegn íslenzkri tungu og almennri rökhugsun. Vegna fáfræðinnar verða þeir ónothæfir sem kjósendur. Í skarðið hlaupa nýir fjölmiðlar, þar sem brottreknir fréttahaukar safnast saman til segja fólki heiðarlegar fréttir.