Lífskjör eða hópefli.

Greinar

Tillögur Þrastar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Dagsbrúnar, um svokallaða lífskjarasamninga eru eðlilegt framhald atburðarásarinnar í fyrra, þegar hliðstæðar hugmyndir í Alþýðusambandinu urðu að víkja fyrir misheppnuðu hópefli hjá opinberum starfsmönnum.

Skoðanir Þrastar njóta stuðnings Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar, Alþýðusambandsins og síðast en ekki sízt Alþýðubandalagsins eftir landsfundinn um helgina. Þeim hefur verið vel tekið af framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins og formanni Sjálfstæðisflokksins.

Að baki liggur löng lífsreynsla. Menn hafa áttað sig á, að engu máli skiptir, hvort laun hækki um 10% eða 100% í kjarasamningum. Það eru önnur atriði en prósentur og krónutölur, sem ráða því, hvort lífskjör fólks batna eða versna. Þröstur nefnir nokkur slík.

Eftir þessa síðbúnu uppgötvun er skammt í, að menn fari að átta sig á, að beztu forsendur bættra lífskjara felast í öflugu og arðbæru atvinnulífi, ríkum fyrirtækjum, sem hafa efni á að borga almennilegt kaup. En vísast þarf meiri lífsreynslu til að átta sig á slíku.

Opinberir starfsmenn hafa litla möguleika á hugljómun af þessu tagi. Þeir vinna hjá fyrirtæki, sem enginn veit, hvort er arðbært eða ekki. Þeir geta þess vegna gert gegndarlausar kröfur, því að fyrirtækið verður aldrei sagt til sveitar. Það er sjálft hið opinbera.

Fyrir réttu ári fór þetta Limbó í verkfall. Þátttakendur höfðu af því mikla nautn, einkum kennarar. Þeir tóku þátt í ævintýri, sem Guðmundur J. Guðmundsson var mörgum sinnum búinn að gera. Það var nýtt fyrir þeim að rækta með sér hópefli á verkfallsvakt.

Áhorfendum fannst hins vegar hópeflið frekar minna á sjálfspyndingarhvöt. Niðurstaðan var nefnilega sú, að opinberir starfsmenn drógust meira aftur úr. Þeir fengu sínar krónur og prósentur, en aðrir fengu meira. Þennan gang lífsins er Þröstur farinn að þekkja.

Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er ekki hrifinn af tillögum Þrastar. Formaðurinn er enn í vímu hópeflisins. Hann hefur ekki enn áttað sig á, að sjálfur beið hann frægan ósigur fyrir réttu ári, þegar kjör opinberra starfsmanna voru gerð verri en þau voru áður.

Hópeflið á enn vísa stuðningsmenn, þótt formaður Dagsbrúnar sé orðinn þreyttur á verkfallsvaktinni. Opinberir starfsmenn eru sjálfsagt til í einn eða tvo slagi í viðbót. Öflugur minnihluti í Alþýðubandalaginu hefur meiri áhuga á upplausn en kjarabótum.

Mikilvægt er, að ríkisstjórnin og Vinnuveitendasambandið taki vel hugmyndum Þrastar, ekki bara í orði, heldur einnig á borði. Slík viðbrögð gætu auðveldað útbreiðslu skilnings á kostum lífskjarasamninga fram yfir hópefli, verkfallsvaktir og sjálfspyndingu.

Auk þess er nauðsynlegt, að ríkisstjórnin öðlist síðbúinn skilning á, að raunvextirnir hafa skipt þjóðinni í tvo hluta, þann, sem byggði á kostnað sparifjáreigenda, og hinn, sem er að byggja eða á eftir að byggja. Það er lífsnauðsyn, að unga fólkinu sé ekki sparkað úr þjóðfélaginu.

Ekki er síður nauðsynlegt, að hægri kanturinn í pólitíkinni átti sig seint og um síðir á, að léleg lífskjör þjóðarinnar gera ráð fyrir, að hvorugt foreldrið sé heima. Þess vegna þarf að spýta miklu fé í barnagæzlu. Um sitthvað slíkt ættu hægri og vinstri að sameinast í nýrri og skárri ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson.

DV