Í gamla daga var Hótel Akureyri í Hafnarstræti gististaður allra í höfuðstað Norðurlands, sögufrægur í bókmenntum. Nú er þar gistiheimili bakpokafólks með bezta kaffihúsi Akureyrar á götuhæðinni. Á ferðum um Akureyri reyni ég helzt að koma við í espresso á Akureyri Backpackers. Þar er netsamband einna bezt í göngugötustúfnum Hafnarstræti, þar sem kaffihúsin eru í röðum. Að minnsta kosti heldur betra en í Bláu könnunni, svo ekki sé talað um Eymundsson, þar sem sambandið sveiflaðist. Kaffi og gulrótarterta með rjóma frískar okkur upp á Backpackers fyrir ferð um Víkurskarð. Á kaffihúsinu situr líka forvitnilegt ferðafólk.