Ríkisstjórnin brýtur og bramlar.

Greinar

Einmitt núna er orðið brýnna en nokkru sinni fyrr, að stjórnvöld stöðvi söfnun opinberra skulda í útlöndum, útþenslu hins opinbera og þá verðbólgu, sem stafar af skorti á jafnvægi í opinberum fjármálum. Allt höfum við þetta í orði, en ekkert á borði.

Fyrir skömmu voru vextir á verðbréfamarkaði farnir að lækka vegna aukins framboðs á peningum. Veðskuldabréf einstaklinga höfðu lækkað úr 17%, í 15%, og fyrirtækja úr 14% í 12,5%. Var þá búizt við, að þessir vextir mundu áfram lækka og hafa áhrif á aðra vexti.

Þetta var ánægjuleg þróun. Eftirspurn fjármagns var áratugum saman búin að vera svo miklu meiri en framboðið, að raunvextir hlutu að verða tiltölulega háir, þegar þeir komu til sögunnar. Lækkun þeirra eftir svo skamman tíma benti til ótrúlegs árangurs í leitinni að jafnvægi.

En þá kom reiðarslagið um daginn. Sjálfur ríkissjóður bauð hækkun vaxta á spariskírteinum sínum úr 7% í 9,23%. Þetta reyndist rothögg á hina jákvæðu þróun vaxtalækkunar. Umsvifalaust snerist dæmið við. Í stað þess að lækka meira fóru vextir að hækka að nýju.

Ríkissjóður var í slæmri stöðu. Komið var að innlausn 250 milljón króna af gömlum spariskírteinum. Fjármálaráðherra sá fram á, að þetta yrði ekki allt endurnýjað. Sumt spariféð mundi leita annarrar útrásar. Hækkunin var örvænting til að halda þessu fé.

Auðvelt er að sjá, að sama freisting verður knýjandi í hvert sinn, er ríkissjóður þarf að leysa inn spariskírteini. Þá mun fjármálaráðherra langa til að hækka vexti nýrra skírteina, svo að féð haldist inni í ríkissjóði. Ríkið er þannig hliðstæða fórnardýra okrara.

Verst er, að ráðamenn og fjármálaráðherra hafa ekki hugmynd um, hvort ríkið hefur til lengdar efni á að sprengja upp vaxtamarkaðinn á þennan hátt. Þeir þykjast alltaf geta hækkað skatta, nú síðast vörugjald um heilan milljarð. Þeim getur tæpast verið sjálfrátt.

Á sama tíma leggja þeir fram frumvarp til fjárlaga, þar sem segir orðrétt: “. . . nást þrjú meginmarkmið. Í fyrsta lagi er erlendum lántökum stillt í hóf, þannig að nýjar erlendar lántökur opinberra aðila verða ekki meiri en nemur afborgunum eldri gengisbundinna lána.”

Ennfremur: “Í öðru lagi er með þessu frumvarpi séð til þess, að sem næst jöfnuður verði á rekstri ríkisins, en það er veigamikil forsenda jafnvægisbúskapar á efnahagssviðinu almennt. Loks er. . . stefnt að því, að umsvif ríkisins verði ívið minni en á yfirstandandi ári.”

Gott væri, ef satt væri. Staðreyndin er hins vegar alveg þveröfug við fullyrðinguna. Ef hið opinbera er skoðað í heild og því, sem menn eru farnir að kalla C-hluta fjárlaga, bætt við A- og B-hlutann, kemur í ljós, að allt er áfram á fyrri heljarbraut.

Frumvörp fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar til fjárlaga og lánsfjárlaga sýna, að erlendar skuldir hins opinbera munu að óbreyttu vaxa um hátt í tvo milljarða króna eða sem svarar hátt í 2%. af þjóðarframleiðslu á næsta ári. Þetta er hörmulegra en orð fá lýst.

Til viðbótar hyggst ríkisstjórnin skrúfa upp verðbólguna með eins milljarðs vörugjaldi, sem fer beint út í verðlagið. Því verður áfram spenna, óhófseftirspurn fjármagns og hækkandi vextir. Nema ríkisstjórnin hætti að ljúga að sjálfri sér og öðrum, – snúi við blaðinu.

Jónas Kristjánsson.

DV