Bangkok

Veitingar

Á hurðinni stóð: Opið 11-21. Ég kom kl. 13:15 inn í tóman sal. Hávært rifrildi heyrðist úr eldhúsi. Austurlenzk þjónusta kom fram, leit mig reiðum augum, en tók við pöntun. Hún gekk stundum um gólf. Hún staðnæmdist 13:50, horfði út í loftið og kallaði: “Það er lokað klukkan eitt”. Síðan horfði hún á mig, að því er virtist reiðubúin að svara athugasemdum mínum um, hvað stæði á hurðinni. Ég þagði. Hún fór inn í eldhús og fór að rífast þar, en ég forðaði mér 13:59.

Í sumum öðrum tilvikum var þjónustan vestræn og hlutlaus. En mér finnst ekki ástæða til að fara út að borða til að eiga á hættu að neyðast til að hlusta á persónuleg vandamál út úr eldhúsi og svara starfsfólki, sem er illa við gesti. Ég get ímyndað mér sumt betra við tímann og peningana að gera.

Athyglisvert er, að slík uppákoma gerist einmitt í veitingahúsi, sem kallað er Bangkok. Í taílenzkum matstofum er yfirleitt kurteisin alls ráðandi, bæði hjá starfsliði og gestum. Báðir aðilar brosa og hneigja sig, enda er ekki hægt að hugsa sér notalegri og siðmenntaðri staði. Bangkok við Síðumúla er eins langt frá Bangkok í Taílandi og hugsazt getur.

Asísk blanda

Matseðillinn í Bangkok í Síðumúla hefur í fimmtíu liðum aðeins eitt einasta atriði, sem ég gat fundið, að einkenndi matreiðslu í Bangkok í Taílandi. Það er masaman-sósan, sem á einum stað seðilsins er hægt að fá með nautakjöti. Einnig að þessu leyti virtist mér staðurinn vera rangnefni. Matseðillinn og þjónustan eru samanlagt hálfgerð móðgun við mikla menningarþjóð í Indókína.

Ég gáði í heimildir um matreiðslu í Víetnam, Suðaustur-Asíu almennt, svo og Kóreu og fleiri stöðum, en fann ekkert, sem gæti átt við matseðilinn í Síðumúla. Hann virðist vera tilviljanakennt úrtak úr matreiðslu Asíu, eins og hún gæti verið túlkuð í amerískum veitingahúsum, til dæmis í Dakota. Áherzlan er á slagorðum: Súrsætt, chop suey, karrí og chow mein. Eitt þeirra er kínverskt, eitt indverskt og tvö amerísk.

Matreiðslan þarf svo sem ekki að vera verri fyrir þetta. Enda kom í ljós, að hún var ekki lakri en gengur og gerizt hér á landi. En þá er nú samt ekki mikið sagt. Og eftir skemmtilega hrikalegri kryddnotkun að dæma mætti ætla, að hún gæti verið seylonsk að uppruna.

Hugsanalega væri rúm á Reykjavíkursvæðinu fyrir eitt veitingahús, sem byði upp á sýnishorn af matreiðslu Suðaustur-Asíu, frá Indónesíu, Malaysíu, Víetnam, Taílandi og Filippseyjum. Slík stofa gæti þá keppt við einn eða tvo kínverska matstaði, einn japanskan, einn indverskan og einn eða tvo ítalska um hylli þeirra, sem vilja breyta út af matreiðsluhefðum norðursins. en Bangkok við Síðumúla hefur ekki metnað af slíku tagi.

Bragðsterkt

Bangkok-súpa hafði að geyma töluvert af rækjum, hörpudiski og seljustönglum. Hún var afar heit, vel bragðsterk, matarmikil og góð súpa. Hinn forrétturinn, Bangkok-salat, bjó yfir sjávarréttum, aðallega rækjum, með lauk og hálfglæru káli, sem var ofsalega bragðsterkt. Spurt var, hvort ég vildi salatið sterkt eða veikt, og þetta var sterka útgáfan.

Sjávarréttir í puket-karrí voru rækjur, hörpudiskur og smokkfiskur með margvíslegu grænmeti. Þetta var vægt eldaður matur og ekki seigur, með hæfilega sterkri karrísósu. Hrísgrjón voru borin fram í sérstakri skál og fylgdu einnig öðrum aðalréttum staðarins.

Súrsætir sjávarréttir reyndust vera rækjur, skötuselur og hörpudiskur með ýmsu grænmeti í súrsætri sósu, sem var mun sterkari en sú, sem ég hafði prófað í Sjanghæ og Mandarín. Þetta var ágætis matur, eins og raunar líka hinir sjávarréttirnir, sem voru í karrí.

Nautakjöt gafst tvisvar illa í prófunum þessum. Puket-karrí var afar þurrt og lítt áhugavert. Enn lakara var naut í ostrusósu. Sú sósa var raunar afar bragðsterk, en minnti alls ekki neitt á ostrur. Snöggsteikt Bangkok-nautakjöt, vel heitt og sterkkryddað, var hins vegar ágætt.

Djúpsteikt kjúklingalæri með kryddsósu var afar vel heppnað, alveg mátulega lítið eldað og meyrt. Þetta var bezti rétturinn, sem prófaður var.

Í stórum dráttum mátti segja um matreiðsluna í þremur heimsóknum, að hún var frambærileg og hélt staðnum uppi. Hana má næstum bera saman við Mandarín og Sjanghæ, en önnur atriði draga staðinn niður, svo sem áður er getið. Eftirsóknarverðast við matreiðsluna er hin hressilega notkun á kryddi.

Bangkok er 34 sæta salur með einföldum bitum í dökku lofti. Yfir hverju borði er loftlampi. Kínversk listaverk eru á ljósum veggjum. Í öðrum hluta salarins eru stálstólar og í hinum viðarstólar, hvorir tveggja með tágasetum. Á gólfi er tígulsteinn og teppi. Dálítið er af plöntum.

Pappírsmunnþurrkurnar voru afar rýrar eins og á öðrum austurlenzkum veitingahúsum landsins og flestum bjórkrám þess. Skiljanlegt er, að veitingamenn vilji ná niður kostnaði til að bjóða lægra verð. En mér finnst oftast, að viðskipavinir njóti ekki fullrar þátttöku í þeim sparnaði.

Verst er, að sá, sem hefur smeygt þessari vöru inn á flesta staðina, selur munnþurrkur, sem skortir forsendu slíkra verkfæra, rakagleypnina. Ef veitingamenn bjóða upp á pappír til þessara þarfa, verður hann að taka í sig raka, helzt til jafns við gamla og góða tauið. Það gera raunar sumar tegundir af munnþurrkum úr pappír, en þær eru lítt notaðar í veitingahúsum landsins.

Ódýrt í hádegi

Verðlagið í Bangkok sést af matseðlinum, sem birtur er með þessari grein. Nánari skoðun þess leiðir í ljós, að staðurinn er að kvöldlagi í verðflokki, sem er mitt á milli miðjuverðs Torfunnar og Mandaríns og lága verðsins í Laugaási og Pottinum og pönnunni.

Hagkvæmustu viðskiptin við Bangkok eru í hádegisverðarseðlinum, sem býður einn rétt, ríkulega skammtaðan, með gosi og bjór, á 240 krónur að meðaltali. Þetta tilboð nægir ef til vill til að bæta takmarkanir staðarins á öðrum sviðum.

Jónas Kristjánsson

Í hádeginu:
230 Djúpsteikingar: Fimm réttir
240 Pataya chop suey: Þrír réttir
240 Bangkok karrí: Fjórir réttir
250 Bangkok snöggsteikt, sterkt kryddað: Þrír kjötréttir
(Innifalið gos eða pilsner)

Á kvöldin
150 Súpa a la Bangkok
210 Bangkok-salat með sjávarréttum
390 Nautakjöt: Með fimm sósum
350 Bangkok súrsætt: Þrír réttir
370 Puket karrí: Fjórir réttir
275 Thai chow mein: Þrír réttir
325 Pataya chop suey: Fjórir réttir
330 Djúpsteikingar: Sex réttir
275 Steikt hrísgrjón special
270 Djúpsteikt kjúklingalæri með kryddsósu
425 Hálfur kjúklingur með taílenzkri kryddsósu
140 Lychees
150 Djúpsteiktur banani
80 Ís

DV