Af vondum fréttum.

Greinar

Nokkrar ríkisstjórnir í Suðaustur-Asíu hafa gripið til hertra aðgerða gegn fjölmiðlum til að tryggja sér þægilegan fréttaflutning. Þetta eru stjórnvöld lndónesíu, Malaysíu og Singapúr. Þau feta þar með í fótspor mikils meirihluta stjórnvalda í þriðja heiminum.

Aðgerðirnar beinast gegn kunnum blöðum; Asiaweek, Far Eastern Economic Review, New Straits Times og Asian Wall Street Journal. Blöðin hafa gerzt sek um réttar frásagnir af vopnakaupum, viðskiptum við Kína, ástandinu í hernum og hjá dómstólunum.

Hvaðanæva berast tíðindi af misjafnlega grófri viðleitni stjórnvalda þriðja heimsins til að ráða því, hvað almenningur í löndum þeirra fær að vita um stjórnarfar og ástand mála heima fyrir og hvað Vesturlandabúar fá að vita um atburði þar syðra.

Mannréttindi í vestrænum skilningi eiga ekki upp á pallborðið hjá slíkum stjórnvöldum. Staðreyndin er einfaldlega sú, að þorri ráðamanna þriðja heimsins er bófar, sem kvelja og ræna þjóðir sínar.

Algengasta tegund stjórnarfars í heiminum er lögregluríki, þar sem almenningur sætir pyntingum, fangelsunum og morðum, svo sem sést af skýrslum Amnesty. Ráðamenn slíkra ríkja kæra sig ekkert um frásagnir af þessu athæfi eða annarri frammistöðu sinni.

Þeir stela líka öllu steini léttara. Áætlað er, að helmingur allra lána frá Vesturlöndum lendi á svissneskum bankareikningum. Marcos á Filippseyjum og Suharto í lndónesíu eru frægir fyrir þetta, en suðuramerískir herforingjar hafa líka verið drjúgir.

Harðstjórar þriðja heimsins svara fréttum um þetta með því að segja þær vera hreina lygi. Vesturlönd noti yfirburði sína í fjölmiðlun til að rægja þriðja heiminn. Slíkt beri að stöðva, meðal annars með því að takmarka aðgang fréttamanna að þessum löndum.

Ennfremur segja þeir þjóð sína bera skaða af ágreiningi í fjölmiðlum heima fyrir. Fjölmiðlanir eigi ekki að segja vondar fréttir, heldur stuðla að uppbyggingu landsins.

Til að tryggja slíkt beri áróðursráðuneytunum að ritskoða fjölmiðlana og helzt að eiga þá. Til þess að sjá í gegnum þessar kenningar harðstjóranna verða menn að gera skarpan greinarmuná þjóðum þriðja heimsins annars vegar og hins vegar ráðamönnum hans, er nota kenningarnar sem eitt öflugasta kúgunartæki sitt.

Harðstjórar heimsins hafa tekið saman höndum í Unesco, Menntastofnum Sameinuðu þjóðanna. Þar mynda þeir meirihluta að baki forstjóra, sem hagar sér eins og keisari og brennir í París þremur krónum af hverjum fjórum, sem stofnunin hefur í tekjur.

Á vegum Unesco eru samin gögn, sem eiga að sýna fram á, að nauðsynlegt sé að skipuleggja fjölmiðlun í heiminum á nýjan hátt, svo að harðstjórarnir ráði því, hvaða fréttir berist frá ríkjum þeirra, til þeirra og innan þeirra. Gögnin eru notuð til að herða ritskoðun.

Af þessum og öðrum ástæðum hafa Bandaríkin sagt skilið við hina aumu stofnun og Bretland ítrekað tilkynningu um brottför um áramótin. Ísland setur hins vegur sitt litla lóð á vogarskál harðstjóranna og leggur keisaranum í Unesco meira að segja til stjórnarmann.

Ef ríkisstjórn Íslands vildi hins vegar leggjast á sveif með alþýðu þriðja heimsins, mundi hún segja skilið við hina fjárhagslega og hugsjónalega gerspilltu stofnun.

Jónas Kristjánsson

DV