Gestur

Veitingar

Café Gestur virðist ætlaður ungu fólki, enda aðallega setinn slíku, raunar þéttar setinn en mörg önnur veitingahús borgarinnar. Innréttingar eru hráslagalegar og verðið nokkuð hátt.

Matseðillinn er hefðbundinn, nokkurn veginn laus við hugmyndaflug. Hann er í þessu örugga, sem unga fólkið vill, svo sem steikum og ísum. En matreiðslan sjálf er betri en ef til vill mætti ætla af þessu.

Gömlu innréttingarnar hafa verið fjarlægðar. Eftir stendur hvítur salur, sem skiptist í tvennt. Básar eru að framanverðu og laus húsgögn að innanverðu. Góðir stálstólar með tágasetum og hvítdúkuð borð í þeim hluta stinga í stúf við gróft útlit staðarins að öðru leyti.

Athyglisvert er, að fremri og harðbýlli hluti salarins er vinsælli hjá unga fólkinu. Þar situr það þröngt í fremur óþægilegum, plastklæddum básum, sem ná í axlarhæð, við dúklaus borð, sums staðar utan í vel heitum þilofnum. Mun rýmra er að sitja í tágasessum fyrir innan.

Sennilega er skiptingin hugsuð þannig, að framar sé kaffistofa og innar matstofa, en mér virðist samt fólk heldur vilja borða í básunum.

Húsnæðið hefur verið opnað upp í súð, svo að bitar og sperrur sjást. Veggljós, barspegill við enda salar og matseðill virðist allt hannað af hinum sama – og gott ef ekki málverkin á veggjunum líka. Kertaljós á borðum innri hluta salar megna ekki að róa staðinn eða jafna ósamræmið í útlitinu.

Þjónusta er ekki sérlega kunnáttusamleg, en þó vingjarnleg og frambærileg, ef ekki er farið út í of náinn samanburð við ýmsa staði, sem eru í miðjuflokki verðlags og bjóða þrautskólaða þjónustu.

Vínlistinn er lélegur. Þar eru nothæfar hálfflöskur af Santa Christina og heilar af Marqués de Riscal og Gewürztraminer. Dapurlegt er, hversu fáum af nýju veitingahúsunum í Reykjavík er sýnt um að velja almennileg vín handa gestum. Af þeim man ég bara eftir Alex við Hlemmtorg, sem hefur þau mál í sæmilegu lagi.

Nýlegur matseðill í Café Gesti er mun skárri en sá, sem fyrir var og lagði mikla áherzlu á hinar úreltu djúpsteikingar, sem unglingarnir kunna því miður að meta. Eftir stendur áherzlan á nautasteikur og ísa af ýmsu tagi. Rétt er þó að taka fram, að hvort tveggja er með frambærilegra móti á þessum stað.

Eitt hið bezta við Gest er ferskleiki hráefna, sem kemur vel fram í hrásalatinu, einkum stóru og fallegu sveppunum. Salatið er hér ekki borið fram sér, heldur á aðaldiskunum sjálfum.

Til þess að hindra heitar sósur í að komast í salatið eru þær bornar fram í sérstökum skálum, en hafa auðvitað samt tilhneigingu til að samlagast, þegar þær eru komnar á diskinn.

Sítrónugrafinn lambavöðvi var ágætur matur, fallega fram borinn með miklu af kiwi-sneiðum. Djúpsteiktir sveppir voru líka góðir. Að vísu var sveppabragðið lítið, því að djúpsteikingin yfirgnæfði eins og oft vill verða. En sveppirnir voru skemmtilega meyrir. Þeim fylgdi ristað brauð og góð pimento-sósa á tómatgrunni.

Eggjakaka var hins vegar í þurrara lagi, en skemmtilega borin fram í heitri pönnu. Sítrónuleginn hörpuskelfiskur var frambærilegur, en með fullsnörpu sítrónubragði, borinn fram kaldur.

Meðlæti aðalrétta var staðlað, hrásalat, ferskar sveppaflögur og gulrótaræmur. Með kjötréttunum voru svo bakaðar kartöflur og pönnusteiktir sveppir. Með fiskréttunum pönnusteiktar kartöflur og paprika. Öll þessi pönnusteiking var fremur mildilega gerð.

Pönnusteikt smálúða var frískleg og fremur góð, miðlungi steikt, borin fram með miklu af rækjum og hæfilega miklu smjöri, sem var þó nógu mikið til að leka út í hrásalatið.

Steikur staðarins áttu að vera “bláar”, en reyndust vera hálfbláar (medium rare), svo sem venja er hér á landi og á Norðurlöndum. Þær voru frambærilegar, sæmilega meyrar.

Ein þeirra hét piparsteik og var hæfilega pipruð. Önnur hét mafioso og var alveg jafnmikið pipruð. Hin þriðja var mildari og raunar ekki eins meyr. Hún var óvenjuleg að því leyti, að hún var borin fram með kiwi-, banana-, melónu- og eplabitum.

Bláberjapæ með rjóma var gott og hefði verið enn betra, ef bláberjabragðið hefði verið skýrara. Ísa mátti fá með ýmiss konar líkjör. Þeir voru heimalagaðir og sá með mintulíkjörnum var hressilega sterkur. Þeir voru bornir fram í háum glösum. Sömuleiðis ferskt ávaxtasalat með rjóma. Hvort tveggja var glæsilegt tilsýndar. Sæmilegt kaffi kostaði 50 krónur í hádeginu og var frítt með kvöldmat.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af frambærilegu víni var 1178 krónur samkvæmt reikningsaðferð greinaflokks þessa.

Það er svokallað miðjuverð og væri að mínu viti næstum sanngjarnt, ef önnur atriði héldu til jafns við matreiðsluna, – ef staðurinn væri ekki svona hrár og hversdagslegur.

Café Gestur er veitingahús handa ungu fólki til að snæða steikur og ísa. Frá sjónarmiði matargerðarlistar er það ekki spennandi.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill:
130 Rjómalöguð sveppasúpa
245 Eggjakaka með púrrum og papriku
270 Djúpsteiktur fiskur með frönskum kartöflum
365 Pönnusteikt smálúða með piparjurtum

Fastaseðill:
150 Gratineruð lauksúpa
155 Humarsúpa maison basque
150 Karrísúpa með rækjum
355 Blandaðir síldarréttir með brennivínsstaupi
360 Grillsteiktir humarhalar með ristuðu brauði
230 Rækjuskál með ediksósu
240 Reyktur lax með melónubáti
260 Kryddleginn hörpuskelfiskur með ristuðu brauði
320 Grafinn lambavöðvi með kiwi
160 Djúpsteiktir sveppir með pimento-sósu
245 Djúpsteiktur camembert með rifsberjahlaupi
255 Eggjakökur ýmsar
245 Appelsínusalat með möndlum og rúsínum
270 Kjúklingasalat með greipávexti
250 Græna sprengjan með ediksósu
240 Sesar-salat með tómötum og olífum
265 Djúpsteikt ýsa með frönskum kartöflum og remúlaði
385 Pönnusteikt smálúða með piparjurtum
390 Brauðhnúður með sjávardýrum
410 Grillsteiktir humarhalar
630 Léttsteiktur lambavöðvi með kiwimauki
680 Nautasteik mafioso með piparþrennu og bourbonviskí
660 Piparsteik classico
680 Ávaxtasteik með kiwi, banana, melónu og epli
195 Bláberjapæ með rjóma
165 Heimalagaður ís með möndlukrókant
190 Heimalagaður ís með kókos og Crème de menthe
185 Heimalagaður ís með möndlum og Amaretto
180 Heimalagaður ís með Crème de cacao
230 Ferskt ávaxtasalat með rjóma

DV