Dýrt gjaldþrot.

Greinar

Komið hefur í ljós. að tjónið af völdum erfiðleika Hafskips mun nema nokkrum hundruðum milljóna, þegar öll kurl eru komin til grafar í gjaldþrotinu. Mest verður tap Útvegsbankans, líklega um eða yfir 300 milljónir, og hluthafanna, tæplega 100 milljónir.

Þetta eru aðeins tölur á blaði og segja ekki alla söguna. Að baki Útvegsbankans er ríkið fyrir hönd skattborgara og annarra landsmanna, sem verða fyrir miklu tjóni, ef til vill upp í hagnað þjóðfélagsins af 27 ára samkeppnisstöðu Hafskips og hagnað bankakerfisins af 27 ára viðskiptum Hafskips.

Að baki hluthafanna eru fyrirtæki og heimili úti í bæ. Það verður mörg fjölskyldan og margur reksturinn, sem verður fyrir þungu áfalli við gjaldþrot Hafskips.

Eðlilegt er, að fólk spyrji, hvernig svona lagað geti gerzt og hvað sé til ráða. Að vísu er þetta ekki eina gjaldþrotið hér, þótt slíkar hörmungar séu algengari í útlöndum. Ýmis fiskiskipaútgerð hefur orðið gjaldþrota á sama tíma og valdið hundraða milljóna tjóni.

Fyrst og fremst er það stærð tjónsins, sem sker í augu. Í togaraútgerðinni stafa slík tjón sumpart af innbyggðum velvilja kerfisins í garð fiskveiða. Og í kaupskipaútgerð Hafskips virðist tjónið sumpart stafa af óeðlilegum aðgæzluskorti Útvegsbankans á þessu síðasta ári.

Stærsta þáttinn í útreið Hafskips eiga Atlantshafssiglingarnar, sem hófust í fyrrahaust. Svo virðist sem ýmsir helztu ráðamenn fyrirtækisins hafi ekki tekið nægilegt mark á aðvörunum og gefið bæði stjórnarmönnum og hluthöfum ranga mynd af stöðunni.

Á þessu stigi málsins er ekki ástæða til að vera með vangaveltur um, hvort bjartsýnin hafi verið ósjálfráð eða af ásettu ráði. Altjend er ljóst, að stjórnarmenn og ýmsir aðrir hluthafar voru illilega smitaðir af þessari bjartsýni á aðalfundinum í vor.

Þar var samþykkt að auka hlutaféð úr 15 milljónum í 95 milljónir. Vafasamt er, að nokkur þeirra, sem tóku þátt í aukningunni, hefði gert það, ef þeir hefðu haft raunhæfar upplýsingar um horfur fyrirtækisins. Fyrir þetta verða þeir nú að gjalda dýru verði.

Hin mikla bjartsýni hlutafjárkaupenda hefur án efa smitað yfir í Útvegsbankann, sem hafði heimtað þessa aukningu hlutafjár. Bankinn, sem áður hafði dottað á verðinum, virðist hafa sannfærzt um, að aukningin þýddi, að vandamálið væri komið út úr heiminum.

Svo virðist sem ráðamenn Útvegsbankans hafi árum saman tekið lítið sem ekkert mark á aðvörunum Bankaeftirlitsins, sem aðallega fjölluðu um, hversu varasamt væri að vera með svona mörg egg í sömu körfunni. Bankinn hefði ekki burði til að hafa svona fjárfrekan viðskiptavin.

Einkar sérkennileg afstaða ráðamanna Útvegsbankans hefur komið átakanlega fram í öðru máli, kynningu bankans á nýju sparifjárformi. Í henni segir orðrétt: “Í ríkisbanka er áhættan engin”. Með þessu er vísað til, að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum bankans.

Af þessu má læra, að ríkisbankar hafa tilhneigingu til að vera ábyrgðarminni en einkabankar, enda hafa hinir síðarnefndu reglur um fjölda eggja í hverri körfu. Slíkar reglur ætti að setja um ríkisbanka einnig. Síðan ætti að breyta ríkisbönkunum í banka án ríkisábyrgðar.

Slíkt hindrar ekki. að áfram fari rekstur á höfuðið. Með auknu bankaaðhaldi má þó minnka skellinn.

Jónas Kristjánsson

DV