Stríðsfengur í stjórnmálum

Greinar

Átökin um, hver verði næsta heimahöfn togarans Kolbeinseyjar, veita innsýn í stjórnmálin. Þau eru fyrst og fremst barátta um aðstöðu til að deila og drottna. Önnum kafnir í fyrirgreiðslum eru stjórnmálamenn á Alþingi, í ríkisstjórn og í lánastofnunum.

Kolbeinseyjarmálið er sérstakt að því leyti, að átökin eru ekki milli kjördæma, heldur innan eins og sama kjördæmis. Fyrirgreiðslumennirnir eru að fjalla um, hvort togarinn eigi að vera áfram á Húsavík eða fara til Akureyrar eða Þórshafnar og Raufarhafnar.

Upphaf látanna var, að Húsvíkingar buðu ekki hæst í gjaldþrota skipið, heldur Norður-Þingeyingar. Áætlað hefur verið, að tilboð Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga sé 176 milljón króna virði, Útgerðarfélags Akureyringa 163 milljóna og Húsvíkinga 160 milljóna.

Þetta hentaði ekki hinum pólitísku aðstæðum í kjördæminu. Stjórnmálamenn fóru í gang til að reyna að hindra flutning togarans. Sá vilji er út af fyrir sig skiljanlegur. Hins vegar er ekki sama, hvaða ráðum er beitt til að fá honum framgengt. Sú saga er ekki fögur.

Undir forustu framsóknarmanna tókst samstarf milli stjórnmálamanna á Alþingi og í stjórn Fiskveiðasjóðs, sem á skipið. Í því tóku þátt fyrrverandi alþingismenn, sem eru orðnir bankastjórar í Landsbankanum og Seðlabankanum, svo og forsætis- og sjávarútvegsráðherra.

Á vegum sjávarútvegsráðherra var samin skýrsla á hæpnum forsendum. Hún átti að sýna, að fyrirhugaðar breytingar Norður-Þingeyinga á Kolbeinsey mundu ekki kosta fimm milljónir, heldur 17,5 milljónir.

Þegar þetta reyndist ekki haldbært, var gripið til enn harkalegri aðgerða. Samband íslenzkra samvinnufélaga var fengið til að hætta við að ganga í átta milljón króna ábyrgð.

Síðan píndi Seðlabankinn Sparisjóð Þórshafnar til að hætta við að ábyrgjast greiðsluna. Meðan á þessu stóð hafði Landsbankastjóri forgöngu í Fiskveiðasjóði um, að afgreiðslu málsins yrði frestað, svo að Kolbeinsey hrataði ekki í hendur hinna óvinsælu aðila.

Seðlabankastjóri tók hins vegar að sér að mæta með englasvip í sjónvarpinu til að segja, að pólitík hefði alls engin áhrif á gang mála hjá sjóðnum!

Forsætisráðherra lýsti því yfir, að tvímælalaust ætti Húsavík að fá togarann til baka. Þar með sagði hann óbeint, að útboð skipsins væri markleysa ein. Menn hefðu á fölskum forsendum verið fengnir til að bjóða í skipið, sennilega til að finna, hvert væri verðgildi þess. Slíkt er auðvitað siðlaust eins og annað í málinu.

Næsta skrefið var að hóta þeim, sem hæst buðu. Komið var á framfæri við þá, að Raufarhöfn og Þórshöfn skyldu hafa verra af, ef þeir héldu hinu háa tilboði til streitu. Gefið var í skyn, að á næstu árum yrði takmörkuð hin pólitíska fyrirgreiðsla í þágu þessara byggðarlaga.

Hins vegar mundi vera ljúflega munað eftir þeim, ef þeir sendu skeyti um, að þeir drægju tilboð sitt til baka. Þessu tilboði gátu þeir ekki hafnað. Svipuð skilaboð gengu svo til Akureyringa til að fá þá líka til að víkja.

Niðurstaðan verður, að opinber sjóður tapar meira fé en til stóð. Ennfremur, að þar á ofan þarf að borga af almannafé dúsur upp í þá, sem hafa látið undan síga.

Þannig eru vinnubrögðin í stjórnmálum lands, þar sem stjórnmálamenn skammta fjármagnið, deila og drottna í atvinnulífinu, skipta herfanginu. Kolbeinseyjarmálið veitir innsýn í siðblinduna.

Jónas Kristjánsson

DV