Skipulögð síkishús

Greinar

Röng er sú ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að koma nýrri stöð innanlandsflugs fyrir í nágrenni Nauthólsvíkur, sunnan athafnasvæðis Landhelgisgæzlunnar. Hún hefði mun betur átt heima nálægt hinum enda flugbrautarinnar, nær miðborginni.

Þar væri flugstöðin í nágrenni Umferðarmiðstöðvarinnar, hinnar miðstöðvar ferða til borgarinnar og frá henni. Sú staða leggur áherzlu á sérstöðu flugvallarins sem miðborgarvallar, er veitir landsbyggðarfólki greiðan og skjótan aðgang að helztu landsstofnunum.

Hringbrautin og Miklabrautin eru og verða meginás umferðar um borgina. Gott er, að samgöngumiðstöðvar séu við ásinn, ef þess er kostur. Flugstöðina er einmitt hægt að hafa þar, úr því að flugvallarsvæðið snertir Hringbrautina. Þannig á að hugsa dæmið til enda.

Við hönnun sjálfrar flugstöðvarinnar hafa verið endurtekin þau mistök frá flugstöðinni á Keflavíkurvelli að lengja gönguleiðir farþega frá því sem nú er. Til dæmis eru brottfarardyr í innanlandsflugi við annan enda hins langa húss, en kaffistofan í hinum endanum.

Mistökin í skipulagi flugstöðvar og flugvallarsvæðis eru dæmi um, að skipulagsáform borgarstjórnar eru ekki nógu vönduð um þessar mundir. Þau bera einkenni flausturs, sem líklega stafar af, að kosningar eru í nánd. Á slíkum tímum er gamall siður að unga út teikningum.

Önnur áform, sem skoða þarf betur, eru í skipulagi Kvosarinnar. Þar virðist ráðgert að koma upp síkishúsum eins og reist voru í Amsterdam og víðar á 17. öld. Það eru mjó og há hús, sem upprunalega eru miðuð við fasteignaskatta, er tóku mið af lengd síkisbakka.

Ekki er vitað, að hjá borginni séu ráðagerðir um að veita sjó á götur Kvosarinnar og taka upp lengdarmetraskatt í stað fasteignagjalda. Þess vegna er nærtækt að álykta, að hin svonefndu borgarhús séu tímaskekkja og búi ekki til neina reykvíska Amsterdam.

Fimm hæða byggðin, sem ráðgert er að verði hin almenna regla í Kvosinni, tekur of lítið tillit til hinna upprunalegu húsa, sem mörg eru tvær hæðir og ris. Sum þeirra eiga að drukkna milli síkishúsanna og önnur beinlínis að hverfa. Sum þeirra eiga betri örlög skilið.

Austurstræti 22 er eitt húsanna, sem ber að vernda. Það reisti Ísleifur Einarsson landsyfirréttardómari árið 1801. Síðar var það frægt sem bústaður stiftamtmanna og kallað Greifahús. Um tíma var það konungssetur, er Jörundur hundadagakonungur réð hér ríkjum.

Nefna mætti fleiri dæmi, svo sem Ísafoldarhúsið. Miklu nær er að laga skipulagið að slíkum húsum, hógværum og sögufrægum, en hinum nýlegu turnum, sem rísa í nýríkri bankastjórafrekju upp úr byggðinni.

Skynsamlegra og menningarlegra, og alls ekki tiltakanlega dýrt, væri að rífa ljóta turna á borð við Nýja Bíó og Iðnaðarbankann, sem hafa gert vesturhlið Lækjargötu að skörðóttum kjafti. Hina hógværu fyrirmynd sjáum við í Torfunni handan götunnar.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið fjallað um skipulag Skúlagötusvæðisins. Samþykkt var skásta hugmyndin að því svæði, en hún er samt ekki nógu góð. Hún verndar til dæmis ekki hin merkilegu Völundar- og Kveldúlfshús við ströndina.

Þar að auki var lítið sem ekkert tillit tekið til nútímalegra sjónarmiða um sambúð byggðar og atvinnu við aðstæður íslenzks veðurs, ­ enn eitt skipulagsslysið.

Jónas Kristjánsson

DV