Gengi krónunnar okkar hefur fengið að reyna ýmislegt, síðan það var hækkað um 6% fyrir hálfum öðrum mánuði. Þessi hækkun dugði svo skammt, að ekki leið nema mánuður, unz krónan hafði fallið aftur um 5,6% eða nokkurn veginn sem hækkuninni nam.
Lokkunin stafaði af óbeinu floti krónunnar. Hún fylgir dollarnum á meðan flestar myntir Vestur-Evrópu fljóta upp á við. Þýzka markið flaut upp um10%, hollenzka gyllinið og sænsku og norsku krónurnar um meira en 9%, og aðrir gjaldmiðlar minna. Með floti sínu bættu þessar myntir stöðu sína gagnvart dollarnum, sem stóð í stað, og þá gagnvart íslenzku krónunni í leiðinni.
Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa nú gert tilraun til að rétta þetta af. Það er gert með bráðabirgðalögum, er auka svigrúmið, sem krónan getur flotið i. Með þessum bráðabirgðalögum hækkaði gengi krónunnar aftur um 2,2%, sem nægir að vísu ekki til að bæta upp gengislækkun undanfarinna vikna, en er þó spor í þá áttina.
Hið aukna svigrúm á gengi krónunnar er til bóta, þótt það feli alls ekki í sér, að hún hafi verið sett á flot eins og gert hefur verið við fjölmargar myntir á undanförnum misserum. Krónan má að vísu fljóta upp að vild, en ekki nema um 2,25% niður á við. Það eru lítil líkindi til þess i okkar verðbólguþjóðfélagi, að krónan hafi tilhneigingu til að fljóta upp. Miklu líklegra er, að hún stefni niður á við, og þar er takmarkað svigrúm sem fyrr.
Svo langt sem bráðabirgðalögin ná, eru þau spor i rétta átt. En það vekur umhugsun um, hvort ekki sé rétt fyrir okkur að leyfa krónunni að fljóta og finna rétt verðgildi sitt frá degi til dags. Ýmsar bremsur má hafa á slíku floti til að hindra spekúlasjónir og sveiflur. Margar þjóðir, sem skynsamlegasta hafa fjármálastefnuna, hafa farið slíkar leiðir með góðum árangri.
Það er ekki hægt að festa gengi gjaldmiðils með lagaboði. Við höfum langa reynslu af því hér á landi. Hvað eftir annað hefur í lengstu lög verið forðazt að horfast í augu við veruleikann, unz engin leið var orðin út úr ógöngunum önnur en að skera krónuna niður mjög verulega. Slíkar stökkbreytingar hafa jafnan sett efnahagslífið úr skorðum og magnað deilur um kjaramál. Tíðari og minni breytingar væru farsælli.
Því miður byggist nýjasta hækkun krónunnar um 2,2% ekki á slíkum hugmyndum um eðlilegt flot krónunnar. Þessi örlitla hækkun er málamyndatilraun til að hamla gegn sjálfvirkri lækkunarþróun síðustu vikna og komast aftur í átt til þess gengis, sem ákveðið var fyrir hálfum öðrum mánuði. Þessi tilraun byggist á pólitískum forsendum en ekki efnahagslegum. Krónan heldur áfram að lækka, þrátt fyrir slíkar tilraunir til hækkunar.
Það mikilvægasta við bráðabirgðalögin um hækkunina er samt, að i þeim felst viss viðurkenning Seðlabanka og ríkisstjórnar á, að gengi krónunnar þurfi að vera frjálsara, svo að hún geti hverju sinni mælt sem réttast verð og gegnt hlutverki sínu sem bezt.
Jónas Kristjánsson
Vísir