Íslenzkur olíugróði

Greinar

Olíufélögin, ríkisstjórnin, vinnuveitendasambandið og aðrir hagsmunaaðilar munu reyna að gera lítið úr þeirri lækkun olíuverðs, sem orðið hefur á síðustu þremur mánuðum. Staðreyndin er þó sú, að lækkunin nemur heilum þriðjungi hráolíuverðs, tíu dölum á tunnuna.

Hvort sem mælt er í verðlagi á Rotterdammarkaði eða á bandarískum markaði, er niðurstaðan hin sama. Hráolía, sem kostaði í byrjun nóvember rúmlega 30 dali tunnan, er nú komin niður fyrir 20 dali. Þetta er ekkert venjulegt verðfall, heldur hreint verðhrun.

Jamani, olíuráðherra Saúdi-Arabíu, hefur hótað félögum sínum í olíuframleiðslusamtökunum Opec, að verðið geti lækkað niður í 15 dali á tunnuna.

Saúdi-Arabía dró á undanförnum árum mjög úr olíuvinnslu og fór raunar langt niður úr kvótanum, sem ríkinu bar samkvæmt samkomulagi olíuríkjanna. Ýmis önnur ríki fóru hins vegar langt fram úr kvótanum í trausti þess, að Saúdi-Arabía sæi um samdráttinn.

Í nokkur ár hefur verið offramboð á olíu. Iðnríki Vesturlanda hafa náð góðum árangri í orkusparnaði og mildir vetur hafa dregið úr húshitunarþörf. Afleiðingin er sú, að dagprísar á olíu á markaði í Rotterdam hafa lengi verið lægri en uppsett verð Opec-ríkjanna.

Á sama tíma hefur orðið mikill samdráttur í efnahag Saúdi-Arabíu. Þetta ríki, sem til skamms tíma óð í peningum, getur nú tæpast staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Margir mánuðir eru síðan ríkið fór að benda á, að þanþol þess væri þrotið.

Þessi breyting verður langvinn. Hún stendur að minnsta kosti í nokkur ár. Hún mun hafa gífurleg áhrif á efnahag orkukauparíkja, þar á meðal Íslands. Hún ætti að duga til að ná okkur upp úr kreppunni, sem hefur hrjáð okkur í nokkur undanfarin ár.

Að vísu staðfestir verðhrun olíunnar, að íslenzkt fossafl er ekki samkeppnishæft á heimsmarkaði. Það var raunar ekki söluhæft á tímum háa olíuverðsins, en nú höfum við fengið tækifæri til að viðurkenna, að framtíð okkar felst ekki í orkufrekum iðnaði.

Hagur okkar felst ekki aðeins í lækkun árlegs olíukaupareiknings úr fimm og hálfum milljarði króna niður í fjóra til fjóra og hálfan. Hagur okkar felst líka í, að viðskiptaríki okkar, þar á meðal Bandaríkin, verða ríkari. Þau hafa efni á að borga meira fyrir fiskinn.

Spámenn í fjármálum telja, að lækkun Bandaríkjadals hafi stöðvazt og að líkur séu á nokkurri hækkun hans á næstu mánuðum. Söluverð afurða okkar er að verulegu leyti reiknað í dölum, svo að við munum njóta til fulls þessarar óbeinu afleiðingar verðhruns olíunnar.

Þetta mun auðvelda samninga um fiskverð og launataxta. Ríkisstjórnin mun treystast í sessi og væntanleg sitja út kjörtímabilið, þrátt fyrir ágreining á ýmsum sviðum. Hún mun komast upp með að halda áfram að falsa gengi krónunnar til að ná sér í vinnufrið.

Svo vel vill til, að á sama tíma hefur verðjöfnunarreikningur olíufélaganna verið jafnaður nokkurn veginn að fullu. Þess vegna væri hægt að láta útgerð og aðra orkukaupendur njóta verðhrunsins að fullu. Olíufélögin og ríkisstjórnin munu sjá um, að svo verði ekki.

Það breytir ekki því, að þjóðfélagið í heild mun spara einn til einn og hálfan milljarð króna á hverju ári. Þótt ríkisvaldið hirði mestan hluta kökunnar, kemur verðhrunið öllum að gagni, því að það dregur úr sárri skattahækkunarþörf vorrar eyðslusömu ríkisstjórnar.

Jónas Kristjánsson

DV