Merk þjóðhagstilraun

Greinar

Framlag ríkisstjórnarinnar í gær til lausnar kjaradeilunni var tiltölulega gott. Í því fólst tilraun til að stuðla að friði á vinnumarkaði, bæta kaupmáttinn með stjórnvaldsaðgerðum um 2% og koma verðbólgunni niður fyrir 10% í lok þessa árs.

Aðilar vinnumarkaðsins eru sízt ánægðir með, að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að frysta búvöruverð. Hún lofar aðeins að stuðla að hóflegri hækkun búvöruverðs. Um þetta var raunar ágreiningur í ríkisstjórninni. Þar vildu framsóknarmenn ekki lofa meiru.

Við nánari skoðun á ríkisstjórnin ekki margra kosta völ á þessu sviði. Ákvörðun búvöruverðs er meira eða minna bundin í lögum. Ríkisstjórnin verður að standa við þau, þótt þau séu bæði vitlaus og skaðleg. Þau eru raunar hornsteinn stjórnarþátttöku Framsóknar.

Ríkisstjórnin getur hindrað verðbólgu búvöru á þann hátt einan að hækka niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Þar sem niðurgreiðslur eru enn skaðlegri en sjálfvirkni hækkunar búvöruverðs, væri að fara úr öskunni í eldinn að reyna að leysa vandann á þann hátt.

Aðilar vinnumarkaðsins verða að átta sig á, að landbúnaðurinn tekur ekki neinn þátt í byrðum væntanlegs samkomulags, heldur verður ríkissjóður einn að gera það, að því er varðar búvöruverð. Og byrðar hans eru betur komnar í annarri mynd en niðurgreiðslum.

Samkvæmt tilboði stjórnarinnar munu tekjur ríkisins minnka um tvo milljarða frá því, sem áður var ráðgert. Er gert ráð fyrir verðlækkun rafmagns og ýmissar þjónustu, svo og tekjuskatts og útsvars. Erfitt er að sjá, hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa við allt þetta.

Lítt dugar að lækka tekjur ríkisins, ef jafngildur sparnaður kemur ekki á móti. Um hann eru engar upplýsingar á þessu stigi málsins. Ef tekjulækkunin kemur að mestu leyti fram í auknum taprekstri ríkissjóðs er að sjálfsögðu verr af stað farið en heima setið.

Eitt mikilvægasta atriði þess, að verðbólgu sé haldið í skefjum eða minnkuð, er, að ríkissjóður efni ekki til meiri skuldasöfnunar í útlöndum en þegar er orðin. Ábyrgðarlaus loforð um minnkaðar ríkistekjur geta hæglega leitt til afleitrar skuldasöfnunar í útlöndum.

Ríkisstjórnin hyggst lækka nafnvexti úr 32% í 20% strax um næstu mánaðamót og síðan smám saman niður í 12%. Síðasta talan er ekki óraunhæf, ef verðbólgan verður þá komin niður fyrir 10%. En ofætlað er, að verðbólgan verði 1. marz komin niður fyrir 20%.

Með hinni miklu lækkun nafnvaxta er ríkisstjórnin að bjóða upp á aukið misræmi í vöxtum og flótta sparifjár úr bönkum. Tilboðið hefði verið trúverðugra, ef ekki væri farið svona gassalega af stað. Tilboðið er raunar hættulegt eins og það lítur út núna.

Þannig eru ýmsir annmarkar á framlagi ríkisstjórnarinnar til lausnar kjaradeilunni. Þó er enn ótalin sú hugmynd hennar að frysta skráningu gengis krónunnar á þessu ári. Hún er stórhættuleg, en stuðlar þó að minnkaðri verðbólgu á þessu ári.

Mestu máli skiptir, að ríkisstjórnin finni leiðir til að spara á móti samdrætti tekna ríkisins. Ef svo verður, er hugsanlegt að markmiðið náist að meira eða minna leyti, að verðbólga hraðminnki og kaupmáttur aukist lítillega ­ auk friðarins á vinnumarkaði.

Samningsaðilar ættu að taka vel tilboði ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir annmarka þess, og freista þess að fylla í eyður þess. Það er þátttaka í merkri þjóðhagstilraun.

Jónas Kristjánsson

DV