Gott er að ná greftri út

Greinar

Fjölmiðlarnir á Íslandi eru tiltölulega friðsamir og gæflyndir. Þeir eru ekki nógu sterkt aðhald í þjóðfélaginu, enda er oft pólitísk lykt af meðhöndlun þeirra á vandamálum, sem upp koma. Hér skortir að verulegu leyti þá djúpristu fréttamennsku, sem áratugum saman hefur einkennt bandaríska fjölmiðla og gert þá að fyrirmynd fjölmiðla á Vesturlöndum.

Í Bandaríkjunum gegna fjölmiðlarnir hlutverki umboðsmanna þjóðþinganna á Norðurlöndum, en á mun virkari hátt. Aðhald þeirra að þjóðfélagskerfinu er svo sterkt, að þeir eru oft kallaðir fjórða valdið, upplýsingavaldið, sem stendur þá við hlið löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds.

Þessi fjórskipting valdsins í Bandaríkjunum hamlar verulega gegn þeirri útþenslu framkvæmdavaldsins, sem hvarvetna verður vart á Vesturlöndum, og stuðlar því á virkan hátt að verndun hins lýðræðislega stjórnkerfis.

Watergate-málið er gott dæmi um sérstöðu bandarískra fjölmiðla. Þeir gerðu sig ekki ánægða með, hve mörgum spurningum var ósvarað eftir rannsókn innbrotsins..í Watergate. Þeir byrjuðu að grafa eftir upplýsingum. Óhemjuleg vinna var.lögð í þessar rannsóknir, þótt eftirtekjan væri rýr í fyrstu.

Þegar fjölmiðlanir fóru svo að skýra frá fyrstu uppljóstrunum sínum, sökuðu stjórnvöld þá um sorpblaðamennsku og slúður. Fréttamennirnir fengu samt frið hjá fjölmiðlum sínum til að halda rannsóknunum sleitulaust áfram. Og það leiddi að lokum til þess, að kýlið sprakk og alþjóð sá gröftinn vella út. Ljóstrað var upp um ólöglegt valdatafl framkvæmdavaldsins. Og stjórnmálamönnum var færður heim sanninn um, að það borgar sig ekki að misstíga sig á þröngum vegi dyggðarinnar.

Watergate-kýlið er áreiðanlega ekki bandarískt sérkenni. Vafalaust er fullt af slíkum kýlum annars staðar á Vesturlöndum, svo ekki sé minnzt á lönd með ólýðræðislegt stjórnkerfi. Munurinn er bara sá, að þau kýli hafa ekki verið sprengd. Fjölmiðlar utan Bandaríkjanna veita valdastofnunum þjóðfélagsins ekki nægilega mikið aðhald til að geta sprengt kýli á borð við Watergate-málið.

Sovézk fjölmiðlun er andstæða hinnar bandarísku. Þar eru aðeins birtar þær fréttir, sem eru í þágu valdakerfisins, og oftast í ákveðnum pólitískum tilgangi. Þetta gengur svo langt, að stundum er ekki sagt frá hörmulegum, sovézkum flugslysum, heldur látið sem atburðurinn hafi aldrei gerzt.

Okkar fjölmiðlun er einhvers staðar þarna mitt á milli. Hún hefur þó, eins og evrópsk fjölmiðlun, færzt nokkuð i átt til hinnar bandarísku, að minnsta kosti á síðustu árum. Hin pólitíska spenna í fjölmiðluninni og valtur fjárhagur valda því þó, að árangurinn er ekki nægilega mikill.

Ef Watergate-málið er brotið til mergjar, má sjá, að uppljóstrun þess er sigur fyrir lýðræðið þar i landi og sýnir styrk þess. Hér á landi eru líklega ekki til rannsóknarefni á borð við Watergate. En mikið hefði lýðræðið okkar gott af því, ef íslenzk fréttamennska hefði afl og aðstöðu til að stinga á fleiri kýlum.

Jónas Kristjánsson

Vísir