Bændur létu blekkjast

Greinar

Bændur hafa loksins áttað sig á, að þeir hafa undanfarin ár og áratugi ranglega verið hvattir til að færa út kvíarnar í hefðbundnum landbúnaði kúa og kinda. Þeir segja, að Framleiðsluráðið, Stéttarsambandið, Búnaðarfélagið og ráðuneytið hafi blekkt sig.

Raunar er hlutur þessara stofnana enn verri. Þær hafa í tvo áratugi hamast gegn hinum fáu, sem hafa bent á, að draga þyrfti saman seglin í hefðbundnum greinum landbúnaðarins. Þessir fáu hafa verið kallaðir hatursmenn bænda og öðrum illum nöfnum.

Nú standa ráðamenn landbúnaðarins frammi fyrir reiðum bændum á fjöldafundum og þurfa að útskýra, að ekki sé lengur unnt að selja hefðbundnar búvörur með sama hætti og áður. Þeir þurfa að viðurkenna, að stjórn þeirra og stjórnsemi hefur brugðizt.

Bændur eru að sjálfsögðu ekki sízt reiðir því að fá fyrirmæli um 12-14% samdrátt á framleiðsluárinu, þegar það er hálfnað. Þessi seinagangur í útgáfu reglugerðar um niðurskurð landbúnaðar er skýrt dæmi um, að stofnanir landbúnaðarins hafa ekki tök á að stjórna.

Bændur krefjast lengri aðlögunartíma. Krafan er eðlileg, því að margir þeirra sjá fram á að vera búnir með kvótann löngu fyrir lok framleiðsluársins. Hins vegar er ekki sjáanlegt, að hægt sé að fá peninga að láni til að kosta óseljanlega aðlögunarframleiðslu.

Svo má ekki gleyma, að samdráttarþörfin er alls ekki ný frétt. Um hana hefur verið fjallað í fjölmiðlum og víðar í tvo áratugi. Allan þann tíma hefur hún verið betur rökstudd heldur en fullyrðingar ráðamanna landbúnaðarins um hið gagnstæða, ­ raunar óhrekjanleg.

Þar á ofan hafa í tæplega ár verið til lög, sem beinlínis hlutu að leiða til niðurstöðunnar, sem nú vekur reiði. Lögin voru sett í fyrravor, til þess að bændur vissu, hvaða kvóta þeir hefðu, og þyrftu ekki að sæta verðskerðingu við hvert einasta lokauppgjör.

Þá þegar var hrunin geta hins opinbera til að halda uppi óseljanlegri framleiðslu. Ríkið hafði ekki efni á meiri niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum og var byrjað að múta bændum til að draga saman seglin. Ekki þurfti mikla framsýni til að gizka á framhaldið.

Margir bændur og sumir þingmenn heimta nú meiri niðurgreiðslur til að stækka hinn tilbúna markað fyrir afurðir hins hefðbundna landbúnaðar. Á máli hinna óraunsæju heitir þetta að sýna vilja til að horfast í augu við vandamálin. En peningar eru engir til.

Ólíkt hafast að svína-, eggja- og kjúklingabændur, þegar þeir geta ekki selt alla framleiðsluna. Þeir koma á fót útsölu til að losna við fjallið, svo sem fólk hefur tekið eftir að undanförnu. Þeir leysa sín mál án þess að væla í stíl hins hefðbundna landbúnaðar.

Kúa- og kindabændur ársins 1986 súpa nú seyðið af því að hafa trúað og treyst fáránlegum lygum og rugli forustumanna landbúnaðarins á undanförnum árum. Þeir eru fangar trúarsetninga, sem enn í dag stuðla að greiðslum til að hvetja þá til að fjárfesta og framleiða.

Afleiðing ofstjórnar stofnana landbúnaðarins er, að framleiðsla óseljanlegra afurða hefur haldið áfram að aukast allt fram á þennan dag. Afleiðingin er, að um síðustu áramót höfðu smjörfjöllin og ostafjöllin enn hækkað, þrátt fyrir miklar gjafir til útlanda.

Vandinn er samt meiri en sá, sem nú er grátinn. Neyzlan heldur áfram að minnka og samanburður neytenda við heimsmarkaðsverð verður sífellt ágengari.

Jónas Kristjánsson

DV