Veðjað á rangan hest

Greinar

Stuðningur Reagans Bandaríkjaforseta við svokallaða Contras skæruliða í Nicaragua er ekki aðeins gagnslaus, heldur beinlínis hættulegur, bæði lýðræðinu í Nicaragua og hagsmunum Bandaríkjanna. Verst er, að líkur benda til, að stuðningurinn nái fram að ganga.

Varla líður svo dagur, að ekki sé af hálfu Reagans ítrekuð sú hugsjón, að Bandaríkin veiti Contras 100 milljón dollara aðstoð til að halda úti skæruhernaði. Öldungadeildin hefur samþykkt þetta naumlega og fulltrúadeildin mun líklega falla frá neitun sinni.

Reagan hefur veðjað á rangan hest í Nicaragua. Contras eru að verulegu leyti rumpulýður undir stjórn fyrrverandi foringja í liði fyrrverandi einræðisherra Nicaragua, hins illræmda Somoza, sem Bandaríkin komu til valda, en Sandinistar hröktu á brott.

Contras hafa nánast engan stuðning í Nicaragua. Þeir hafa búið um sig í nágrannaríkinu Honduras, sem er leppríki Bandaríkjanna, og gera þaðan árásir inn í Nicaragua. Á köflum hefur hegðun þeirra verið hin villimannlegasta, svo sem tíðkaðist á dögum Somoza.

Þeir lýðræðissinnar í Nicaragua, sem áður fylgdu Contras að málum, hafa yfirleitt snúið við þeim baki. Og skæruliðaforinginn Pastora vill ekkert hafa saman við þá að sælda, enda telur hann þá vera málaliða bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Miklu nær væri fyrir Bandaríkin að styðja hina lýðræðislegu stjórnarandstöðu í Nicaragua, kaþólsku kirkjuna, stjórnmálamenn og dagblaðið Prensa, sem njóta mikils stuðnings í landinu. Með því að styðja Contras er grafið undan þessum lýðræðisöflum.

Sandinistar stefna vafalítið í átt til alræðiskerfis í stíl Sovétríkjanna. En sú fyrirmynd er orðin úrelt og nýtur ekki nægilegs stuðnings í landinu. Þess vegna hefur Sandinistum ekki tekizt að knýja fram alræði. Andstaðan er enn virk og hefur aðgang að fjölmiðlum.

Svokölluð Contadora-ríki í Rómönsku Ameríku, Mexico, Panama, Columbia og Venezuela, hafa reynt að miðla málum milli Bandaríkjanna og Nicaragua, en orðið lítt ágengt, einkum vegna andstöðu eða áhugaleysis Bandaríkjastjórnar gagnvart þessum afskiptum.

Fulltrúar þessara ríkja og fjögurra annarra, Argentínu, Brazilíu, Perú og Uruguay, hafa verið á ferðinni í Washington til að reyna að koma vitinu fyrir Bandaríkjastjórn, en án árangurs. Reagan vill greinilega ekki taka upp samningaviðræður við Sandinista.

Bandaríkin hafa einangrast í máli þessu. Af ríkjum Rómönsku Ameríku eru það aðeins harðstjóraríkin Chile og Paraguay, svo og leppríkið El Salvador, sem styðja stefnu og hugsjón Reagans. Jafnvel leppríkið Honduras hefur hingað til ekki fengizt til þess.

Sandinistar hafa stutt tillögu Contadora-ríkjanna um, að allir erlendir hernaðarráðgjafar yfirgefi ríki Rómönsku Ameríku, þar með bæði kúbanskir og bandarískir. Sandinistar hafa lagt til, að Contadora-ríkin taki upp vörzlu á landamærum Nicaragua.

Hvort tveggja virðist skynsamlegt. Bandaríkin mundu ná því markmiði að losna við Kúbumenn frá Nicaragua og torvelda Sandinistum að flytja út sovézkt skipulag um landamærin til nágrannaríkjanna. Á móti fengju Sandinistar frið fyrir Contras.

Reagan hefur á ýmsum sviðum látið hugsjónir sínar víkja fyrir sjónarmiðum hagkvæmni og skynsemi. Hann ætti einnig að gera það í afstöðunni til Nicaragua.

Jónas Kristjánsson

DV