Bakhlið spennufallsins

Greinar

Bresnjev, leiðtogi sovézka kommúnistaflokksins dvelst nú í góðu yfirlæti í Bandaríkjunum. Hann er að endurgjalda velheppnaða heimsókn Nixons Bandaríkjaforseta til Sovétríkjanna í fyrra. Þessar vinsamlegu heimsóknir marka greinileg tímamót í heimsmálunum, vaxandi hláku í samskiptum austurs og vesturs.

Merkilegasta framlag Nixons Bandaríkjaforseta til mannkynssögunuar er að undirbúa og koma af stað vinsamlegum samskiptum við höfuðríki kommúnismans, Sovétríkin og Kína. Hinn margvitri erindreki hans, Kissinger, hefur verið á sífelldum þönum heimshorna milli til að ýta á eftir þessari þróun, – til að stuðla að spennufalli í heimsmálunum.

Vestrænar þjóðir binda miklar vonir við þetta starf. Menn eru löngu orðnir þreyttir á kalda stríðinu og öryggisleysi þess. Evrópubúar mæna vonaraugum til gagnkvæmrar afvopnunar austurs og vesturs. Sumir eru svo óþolinmóðir að vilja einhliða frumkvæði vestrænna ríkja í afvopnun. Sú barnslega einfeldni er sem betur fer ekki enn verulega útbreidd. Skynsemi og gætni fá því væntanlega að ráða ferðinni í þeim friðarskrefum, sem Vesturlönd munu stíga á næstunni.

Þjóðir Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra hafa hins vegar ekki ástæðu til sömu bjartsýni. Spennufallið milli austurs og vesturs mun ekki auka frjálsræði þeirra á næstu árum. Um þessar mundir er einmitt greinilegt, að stjórnvöld þessara ríkja eru að herða tökin á þegnum sínum.

Sovézk stjórnvöld taka frjálshyggjumenn æ fastari tökum. Harðneskja er komin í stað tiltölulega mikillar mildi Krústjovsáranna. Rithöfundar og aðrir, sem opna munninn, eru umsvifalaust sendir í kvalastaði þá, sem kallaðir eru geðveikrahæli, eða hreinlega í þrælkunarbúðir gamla tímans.

Áður en hlákan byrjaði, var meira hik á sovézkum stjórnvöldum. Þá var meiri samkeppni milli stjórnkerfa austurs og vesturs. Vestræn ríki stuðluðu beint og óbeint að straumi upplýsinga og áróðurs austur fyrir tjald. Þessum straumi urðu sovézk stjórnvöld að mæta með eftirgjöfum gagnvart eigin frjálshyggjumönnum.

Nú telur Sovétstjórnin sig hins vegar hafa betri tök. Mikilvægur liður í hlákunni er minnkandi afskiptasemi vestrænna afla af innanríkismálum kommúnistarikjanna. Þegar vestræn stjórnvöld eru að taka upp vinsamleg samskipti við austrænu stjórnvöldin, eiga þau erfiðara en áður með að grafa undan þeim með því að ota frjálshyggju að þegnum þeirra. Þessa hefur gætt að marki á undanförnum mánuðum.

Hlákan felst alls ekki í því, að stjórnkerfi austurs og vesturs séu að nálgast. Hún felst aðeins í því, að heimsveldin sjá sér hag í að draga úr hinni alþjóðlegu spennu. Vægari stefna út á við leyfir Sovétstjórninni harðari stefnu innávið. Það eru því erfiðir tímar framundan hjá frjálshyggjumönnum eystra. Þetta er bakhliðin á spennufallinu mikla.

Við megum ekki gleyma því, að þjóðir hinna austrænu ríkja greiða með vaxandi ánauð kostnaðinn af vaxandi friðarsælu á Vesturlöndum.

Jónas Kristjánsson

Vísir