Sómasamleg húsnæðislán

Greinar

Ríkisstjórnin hefur í höfuðdráttum samþykkt uppkast að frumvarpi um húsnæðislán, sem aðilar vinnumarkaðsins sömdu í tengslum við stóru kjarasamningana í vetur. Þetta er gott frumvarp, sem Alþingi þarf að samþykkja áður en það fer í sumarfrí.

Síðast, þegar vitað var, hafði ríkisstjórnin ekki samþykkt 3,5% raunvextina, sem uppkastið gerir ráð fyrir. Rökstyðja má, að þeir ættu að vera hærri, einkum þar sem ríkið þarf að taka hluta fjármagnsins að láni hjá lífeyrissjóðum og öðrum aðilum á 9% raunvöxtum.

Hins vegar er æskilegt, að litið sé á þennan vaxtamun sem niðurgreiðslu hins opinbera á kostnaði fólks við að eignast íbúð. Ríkið telji svo mikilvægt að gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið, að það leggi fram vaxtamuninn sem eins konar herkostnað.

Auðvitað verður að athuga, að niðurgreiðslunni rignir ekki úr heiðskíru lofti. Hún mun kosta mikið fé, sem ekki nýtist til annarra sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Menn verða að ákveða, að húsnæðismálin séu svo mikilvæg, að þau beri að taka fram yfir aðrar þarfir.

Til þess að spara tíma og tryggja framgang þessa stórmerka frumvarps áður en Alþingi fer í sumarfrí, er skynsamlegt, að 3,5% raunvextir verði samþykktir, úr því að þeir eru í uppkastinu. Síðar má breyta lögunum, ef menn telja aðra raunvexti heppilegri.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að hámarkslán til nýrra íbúða verði tvöfalt hærri en áður og þrefalt hærri en áður til notaðra íbúða. Fólk á að fá 2,1 milljón hjá Byggingasjóði ríkisins til nýrrar íbúðar og 1,47 milljónir til notaðrar íbúðar.

Þetta er umtalsverð aukning lána, þótt útlánageta lífeyrissjóða muni minnka á móti. Þeir neyðast samkvæmt frumvarpinu til að lána Byggingasjóði 55% af ráðstöfunarfé sínu til þess að sjóðfélagarnir fái hámarkslán. Eitthvað eiga þeir þó að geta lánað að auki.

Með einhverjum beinum lánum frá lífeyrissjóðum á samanlögð lánsfjárhæð að fara langt í að mæta um 80% af byggingakostnaði, svo sem lengi hefur verið stefnt að, en hingað til án árangurs. Þar með minnkar þörf fólks á dýrum skammtímalánum, til dæmis í bönkum.

Ekki er síður mikilvægt, að samkvæmt frumvarpinu næst loksins markmiðið, að íbúðalán séu veitt til 40 ára í stað 31 og 21 árs. Það stuðlar að lækkun greiðslubyrðar á fyrstu árunum um meira en helming. Hún verður 73.500 krónur á ári af hámarksláni.

Veitt verða hámarkslán út á íbúðir, sem ekki eru stærri en 170 fermetrar. Síðan lækka lánin um 2% á fermetra, niður í engin lán út á 230 fermetra. Þetta er tilraun til að fá fólk til að byggja hóflegar íbúðir í stað félagsheimilanna, sem tíðkast hafa undanfarin ár.

Frumvarpið gerir réttilega minni greinarmun en áður á lánum til nýrra og notaðra íbúða. Upphæð síðari lánanna verður 70% af hinum. Æskilegt væri að breyta lögunum á næsta þingi til að minnka þennan mun enn frekar. Þjóðin þarf nefnilega að nýta gömlu húsin betur.

En auðvitað tekur þingmenn tíma að átta sig á, að það er ekki fyrst og fremst nýtt íbúðarhúsnæði, sem þjóðin þarf, heldur betri nýtingu húsnæðisins sem fyrir er. Í rauninni hefur í stórum dráttum þegar verið byggt sem svarar þörf, en það er nýtingin, sem er ekki í lagi.

Þrátt fyrir gallana er frumvarpið hið merkasta. Það verður að vísu dýrt í framkvæmd, en endurlífgar tækifæri þjóðarinnar til að eignast þak yfir höfuðið.

Jónas Kristjánsson

DV