Snarbrengluð forgangsröð

Punktar

Hálf þjóðin hefur það gott og mun áfram hafa það gott, hvað sem á dynur. Hálf þjóðin á í erfiðleikum. Þetta er að vísu slumpareikningur með stóru fráviki. Í síðari flokknum eru margir, sem eiga varla til hnífs og skeiðar. Safna skuldum, fara í biðröð hjá hjálparstofnunum, neita sér um læknisþjónustu og lyf. Þarna eru gamlingjar og öryrkjar, einstæðar mæður og börn. Skrítnast er, að þarna er líka láglaunafólk, sem er á fullum launum í starfi, kennarar, sjúkraliðar og fleiri. Þessi hópur fátækra stækkar ört, en ríkisstjórnin gaukar samt tugum milljarða að kvótagreifum og öðrum auðgreifum. Forgangsröðin er snarbrengluð.