Samkeppni er brýn

Greinar

Ekkert er við það að athuga, að Flugleiðir hafa selt hæstbjóðanda hlutabréf sín í Arnarflugi. Öllum sjálfstæðum einkafyrirtækjum ber að haga rekstri sínum með sem mestum eigin fjárhagslegum árangri, þótt óskir stjórnvalda kunni að hníga í aðra átt.

Um leið eru Flugleiðir raunar að lýsa yfir, að þær séu sjálfstætt einkafyrirtæki, sem muni framvegis ekki leita á náðir stjórnvalda með beiðnir um ýmsa fyrirgreiðslu, svo sem ríkisábyrgð, afskrift lendingargjalda og beina styrki. Er það afar ánægjuleg yfirlýsing.

Ekkert er heldur við að athuga óánægju samgönguráðherra með þessa niðurstöðu Flugleiða. Hann telur sig réttilega þurfa að gæta hagsmuna flugfarþega, sem eðli málsins vegna eiga að hagnast á, að samkeppni sé milli tveggja flugfélaga í flugi til annarra landa.

Samgönguráðherra var réttilega ánægður með, að hópur athafnamanna var reiðubúinn að spýta 60 milljón króna nýju fé í Arnarflug, að vissum skilyrðum fullnægðum. Hann sá þá fram á, að slík blóðgjöf væri líkleg til að tryggja framhald á heilbrigðri samkeppni.

Nú er það mál úr sögunni, að sinni að minnsta kosti. En kominn er til skjalanna nýr bjargvættur Arnarflugs. Samkeppnissinnar mæna nú á Helga Þór Jónsson, eiganda heilsuhótels, sem er í smíðum í Hveragerði. Nú kemur í hans hlut að útvega Arnarflugi nýtt fé.

Vafalaust er hinn nýi hlutafjáreigandi stöndugur vel, þar sem hann hafði ekki mikið fyrir að reiða fyrirvaralaust fram þrjár milljónir til handa Flugleiðum fyrir hlutaféð í Arnarflugi. Það lofar góðu um, að hann geti spýtt að minnsta kosti 60 milljónum í Arnarflug.

Þjóðina skiptir engu máli, hver eða hverjir koma Arnarflugi til bjargar. Hver, sem það gerir, mun hafa af því mikinn sóma. Útilokað er fyrir eyþjóð úti í miðju Atlantshafi að hafa eingöngu eitt flugfélag í ferðum milli landa, jafnvel þótt það sé hið bezta félag.

Engin gagnrýni á Flugleiðir eða óvild í þeirra garð felst í að halda fram þeim sannindum, að neytendum kemur samkeppni betur en einokun. Það er lögmál, sem gildir á öllum sviðum og löng reynsla er af hvarvetna í heiminum. Þetta má kalla hreint náttúrulögmál.

Að vísu getur samkeppni, en afar sjaldan, gengið út í öfgar. Hún gerði það, þegar Flugleiðir og Arnarflug bitust um flug í Alsír á dögunum, í stað þess að snúa bökum saman í samkeppni við erlend flugfélög. Hvorugt félagið hafði sóma af þeim bræðravígum.

Samkeppnisaðilar eiga að geta snúið bökum saman, þegar það er báðum til heilla og þjóðfélaginu um leið. Dagblöðin, sem eru í harðvítugri samkeppni, hafa samt vit á margvíslegu samstarfi, einkum í tæknilegum efnum. Flugfélögin eiga að læra af mörgum slíkum aðilum.

Flugleiðir hafa nú réttilega selt hlut sinn í Arnarflugi, svo að greinileg skil eru nú komin milli þessara tveggja ágætu samkeppnisfélaga. Nú reynir á Helga Þór Jónsson að fullnægja skyldunni, sem hann hefur tekizt á hendur, ­ að sjá um, að samkeppnin blífi.

Með sæmilegri bjartsýni má ætla, að neytendur muni hér eftir sem hingað til njóta hagsbótanna af samkeppni í millilandaflugi. Raunar er einnig ástæða til að vona, að unnt verði að auka þessa samkeppni á fleiri flugleiðum en nú er. Þá fengi mál þetta farsælan endi.

Ríkisstjórnin mun nú, með samgönguráðherra í broddi fylkingar, leggja áherzlu á að stuðla að þessu mjög svo brýna hagsmunamáli þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV