Allt vald er illt

Greinar

Valdið spillir.Þetta er eitt af því skýrasta, sem mannkynssagan kennir okkur. Hvað eftir annað hefur það gerzt að frelsarar lýðsins hafa í valdaaðstöðu gerzt harðstjórar. Stalin og Hitler eru tvö nýleg dæmi um þróun, sem gengur eins og rauður þráður í mannkynssögunni. Þetta voru í fyrstunni venjulegir menn, sem byrjuðu svo að breytast á sjúklegan hátt, þegar þeir voru komnir til valda.

Mannkynið hefur í sífellu verið að lenda í blindgötum valdshyggju og harðstjórnar. Það hefur sífellt kostað blóð og tár að snúa frá þessum blindgötum, en það hefur alltaf tekizt fyrr eða síðar. Sumpart minnir þetta á lagið, sem náttúran hefur á að komast úr sínum blindgötum. Einu sinni voru risaskriðdýrin herrar jarðarinnar, en þá tók náttúran hliðarspor og lét hin litlu og veikburða spendýr erfa rikið.

Lýðræðisstefnan er eina aðferðin, sem hefur fundizt gegn blindgötum valdsins. Fullkomnast er lýðræðið, þegar því tekst með sjálfvirkum hætti að tefla valdi gegn valdi, svo að úr verði þráskák, þar sem ekkert eitt vald getur haft fullan sigur. Þetta gerist með valddreifingu, sem er bundin í stjórnarskrám.

Einna greinilegast kemur slík valddreifing fram í stjórnarskrá Bandaríkjanna, mun greinilegar en í stjórnarskrá Íslands, sem farin er að úreldast. Þar vestra eru t.d. framkvæmdavald og löggjafarvald minna háð hvort öðru en er hér á landi. Þess vegna eru ríkisstjórn og þing þar oft á öndverðum meiði, eins og greinilega hefur komið fram að undanförnu. Þessi spenna er heilbrigð, því að hún hamlar gegn samþjöppun valds á einum stað.

Í lýðræðisríkjum má greina ýmsar valdamiðstöðvar. Framkvæmdavald ríkisstjórnar er yfirleitt sterkast, en gagnverkandi öfl felast í löggjafarvaldi þings, dómsvaldi dómstóla, upplýsingavaldi fjölmiðla, efnahagsvaldi atvinnuvega og félagslegu valdi launþegasamtaka. Sjálfstæði þessara þjóðlífsþátta og valddreifingin milli þeirra og innan þeirra er trygging kerfisins gegn því að lenda í blindgötum.

Sovétskipulagið sameinar allt þetta vald undir einum hatti. Þar er dæmigert alræði, dæmigerð blindgata valdshyggjunnar, ein af ótalmörgum slíkum í mannkynssögunni. Allt vald sovétskipulagsins sameinast í Flokknum. Hann hefur ekkert aðhald, ekkert gagnverkandi vald til að hindra, að kerfið lendi í blindgtötu.

Lýðræðisstaða Íslands er ekki nógu sterk. Hér er rúm fyrir stóraukna valddreifingu. Efla þarf vald sveitarstjórna á kostnað ægivalds ríkisstjórnar. Frjálst framtak einstaklinga og sjálfstæðra fyrirtækja þarf að halda velli gegn óhóflegum afskiptum ríkisvaldsins.Tryggja þarf útgáfu margra ólíkra fjölmiðla, sem túlka mismunandi sjónarmið og eru óháðir hver öðrum, svo og ríkisvaldinu. Efla þarf jafnrétti kvenna og atvinnulýðræði. Þar að auki er tímabært að endurskoða stjórnarskrána til samræmis við sjónarmið valddreifingarinnar.

Allt vald er í eðli sínu illt. Þess vegna ber að halda því í skefjum.

Jónas Kristjánsson

Vísir