Efnilegur nýliði

Veitingar

Góð eldamennska einkennir Resto, þar sem áður var Madonna við Rauðarárstíg. Þar fékk ég í hádegi þykka tómatsúpu dagsins með vægt elduðum grænmetiskubbum og lax dagsins með risotto og blaðsalati. Hvort tveggja var aldeilis gott, minnti á Rúnar Marvinsson, sem kenndi Jóhanni Helga Jóhannssyni á sínum tíma. Þjónusta var vingjarnleg, en óskóluð („Viltu fá súpuna á undan fiskinum?“). Innréttingar minna á fyrra veitingahúsið. Nærri öll borð eru í föstum básum, þar sem of þröngt er milli sætisbaks og borðplötu. Verðlagið var hóflegt miðað við gæði eldhússins, fiskur á 1800 krónur, með súpu dagsins samtals á 2200 krónur.