Skaðlegar námslánagrillur

Greinar

Tekizt hefur að telja fólki trú um, að námsmenn í háskóla séu gæludýr, sem taki unnvörpum ókeypis lán, ­ því hærri lán sem þeir sæki fínni skóla í útlöndum, ­ og greiði þau aðeins að litlu leyti til baka. Á þessum atriðum hefur menntamálaráðherra hossað sér í vetur.

Í fyrsta lagi er rangt, að námsfólk sæki gírugt í lánin. Komið hefur í ljós, að í Háskóla Íslands notar innan við helmingur námsmanna sér réttinn til námslána. Þetta bendir alls ekki til, að lánin séu svo hagstæð, að nauðsynlegt sé að gera þau torveldari.

Staðreyndin er hins vegar, að námsfólk er yfirleitt dauðhrætt við að nýta sér lánsmöguleika til fulls. Það sér fyrir sér skuldasúpu, sem vex ár eftir ár, meðan það er í námi. Það sér fram á að þurfa að eyða lífsbaráttunni í að endurgreiða þessi lán, meðan aðrir séu að byggja.

Í öðru lagi er rangt, að námslán séu að litlu leyti endurgreidd. Í skýrslu menntaráðherrans sjálfs kemur fram, að nýjustu tölur benda til, að endurgreiðsluhlutfallið sé 85%. Það þýðir, að lánakerfi námsfólks er að 85 hlutum lán og aðeins 15 hlutum styrkir.

Í rauninni má líta svo á, að endurgreiðsluhlutfallið sé of hátt. Ekki má gleyma, að kerfi þetta felur í sér nokkurn veginn einu styrkina, sem þjóðfélagið veitir til að gera ungu fólki kleift að stunda háskólanám. Og 15% er ekki hátt hlutfall, heldur lágt.

Á móti þessum 15% styrk kemur styrkur á móti. Margir námsmenn fara utan í erlenda háskóla og spara íslenzka ríkinu að halda uppi háskólakennslu fyrir sig. Með því að lána námsmönnum meira til að auðvelda þeim að læra í útlöndum er ríkið beinlínis að spara fé.

Þótt ekki sé tekið tillit til þessa gróða ríkisins, er 15% styrkurinn í núverandi mynd mun skynsamlegri en hugmyndir ráðherrans um styrki til hagkvæms náms. Það veit nefnilega enginn núna, hvaða nám verður hagkvæmt að hafa stundað að tíu árum liðnum.

Fyrir fimm árum var hlegið að þeim, sem fóru í líffræði. Nú þykir sú grein fela í sér mikla möguleika. Hver veit nema komi í ljós eftir tíu ár, að núna væri hagkvæmast að hefja nám í sögu og landafræði. Ráðherrann getur ekki spáð í þetta frekar en aðrir.

Líkja má þessu við útgerðarstjóra, sem fyrir tíu árum hefði þurft að spá, hvaða fiskiskip yrðu hagkvæmust um þessar mundir. Hann hefði tæpast talið það mundu verða frystitogarar, enda spáði hann því ekki. “Markvissar” spár af slíku tagi eru jafnan marklausar.

Miklu skynsamlegra er að vera ekki að gæla við rangar framtíðarspár, heldur nota styrkina eins og gert er í kerfinu núna. Miðað er við, að 85% námsins séu hagnýt og 15% ekki. Framtíðin fær svo sjálf að leiða í ljós, hvaða 15% námsins reynist ekki vera hagnýt.

Hugmyndir menntaráðherrans eru að flestu lakari en núgildandi kerfi og sumar beinlínis fyndnar eins og aðild samningsaðila vinnumarkaðsins að stjórn lána sjóðs námsmanna. Ef til vill er ráðherra þar þó eingöngu að reyna að koma illu af stað, skemmta skrattanum.

Eitt er nýtanlegt í tillögum ráðherrans. Það er afnám núgildandi refsinga fyrir sumarvinnu námsmanna. Í stað frádráttar lána vegna sumartekna ætti að koma almenn lækkun námslána úr 100% af svokallaðri umframfjárþörf í til dæmis 85% af heildarfjárþörf.

Innan ríkisstjórnarinnar er mikilvægt, að ráðherrar Framsóknarflokksins stöðvi grillur menntaráðherrans. Þær eru skaðlegar þjóðinni og hag hennar.

Jónas Kristjánsson

DV