Atómslys í svartholinu

Greinar

Sovézkur eðlisfræðingur, sem flúði vestur fyrir tíu árum, lýsti afleiðingum kjarnorkuslyss í Úralfjöllum á þann veg, að landið hefði verið dautt, engir bæir, engin þorp, engir akrar, engin engi, ekkert fólk, ekkert. Honum fannst hann vera staddur á tunglinu.

Þetta voru afleiðingar kjarnorkuslyss, sem varð fyrir nærri tveimur áratugum í Seljabinsk og vandlega var þagað um í því svartholi upplýsinga, sem kallar sig Sovétríkin. Svartholið er hið sama núna, þegar vestrænir aðilar hafa komið upp um nýtt atómslys þar eystra.

Fjórir dagar liðu, þar til yfirvöld játuðu, að slys hefði orðið. Þá vissu Vesturlandabúar þegar um slysið, því að nútímatækni geislamælinga á landi og loftmyndatöku úr gervihnöttum er önnur en tæknin var fyrir tveimur áratugum. Annars þegði svartholið enn.

Markmið svartholsins er að koma í veg fyrir, að almenningsálit geti myndazt. Þess vegna er ekki sagt frá kjarnorkuslysum af þessu tagi, ekki sagt frá hernaðarævintýrum á borð við innrásina í Afganistan og ekki sagt frá heimsins mestu mengun í Sovétríkjunum.

Ef almenningsálit gæti myndazt í Sovétríkjunum, væru þau ekki svarthol. Þá mundi þjóðin rísa gegn kjarnorkukapphlaupinu, sem Sovétstjórnin ber ábyrgð á að þremur fjórðu hlutum að minnsta kosti. Þá mundi Rauði herinn vera látinn hætta glæpunum í Afganistan.

Við þekkjum sovézkt hugarfar á Vesturlöndum. Fjölmiðlar eru úthrópaðir fyrir að segja vondar fréttir ­ af slysum, morðum, glæpum, hryðjuverkum, styrjöldum og öllu því, sem sumt fólk vill ekki heyra. Þeir trufla hinn rósrauða og viðkvæma sálarfrið þessa fólks.

En hinar vondu fréttir vestrænna fjölmiðla gera almenningsáliti kleift að myndast. Fólk getur eitt sér eða hópum saman tekið afstöðu, t.d. gegn atómvopnum, hryðjuverkum eða styrjöldum og komið sjónarmiðum sínum á hið vestræna markaðstorg almenningsálitsins.

Í Sovétríkjunum ræður hins vegar ferðinni hópur glæpamanna, sem hefur ekki aðhald af neinu almenningsáliti og kærir sig ekki um það. Á þessu hefur ekki orðið hin minnsta breyting, þótt nýr Gorbatsjov hafi tekið við af aðframkomnum fyrirrennurum.

Nú, þegar vika er liðin frá kjarnorkuslysinu í Sjernobyl, er ljóst, að Sovétstjórnin ætlar ekki að láta deigan síga. Hún hefur komið því á framfæri, að hún muni engrar afsökunar biðja alla þá erlendu aðila, sem orðið hafa fyrir tjóni eða öðrum óþægindum.

Engum datt í hug, að stjórnin í svartholinu teldi sig hafa neina þörf á að biðja eigin þræla afsökunar. Hún lítur á fólkið í landinu sem peð í langri baráttu fyrir heimsyfirráðum glæpaflokksins í Kreml. En hún hefði getað hegðað sér á annan hátt út á við.

Svo gerði hún ekki. Í því felst hroki heimsveldisins, sem fer sínu fram, ekki bara án tillits til þrælanna í svartholinu, heldur án tillits til allra. Það mun áfram fremja sín kjarnorkuslys, sín útrýmingarstríð, sína mengun ­ ekki síður á kostnað annarra þjóða.

Mesta vandamál mannkyns á okkar tímum er, að annað af tveimur öflugustu ríkjum heims hefur gert sig að svartholi, þar sem upplýsingar berast ekki á markaðs-torgi almenningsálitsins, heldur eru skipulagðar að ofan að hentugleikum ofbeldissinnaðra yfirvalda.

Eina von mannkyns um framhald lífs er, að nútímatækni megni smám saman að beina ljósi upplýsinga inn í svartholið og sá þar fræjum almenningsálits.

Jónas Kristjánsson

DV