Eiturefni á fríum sjó

Greinar

Á neytendasíðu DV var nýlega sagt frá tveggja ára barni, sem át eitrað uppþvottaefni fyrir átta mánuðum og hefur ekki náð sér síðan. Það hefur verið í stöðugum aðgerðum innan lands og utan og getur aðeins nærst gegnum slöngu. Engin vissa er um fullan bata.

Slys þetta ætti að vera öllum málsaðilum áminning, annars vegar hinum fjölmörgu opinberu silkihúfum, sem eiga að hafa stjórn á merkingum eiturefna, svo og hins vegar framleiðendum og stórkaupmönnum, sem eiga að merkja vörur sínar í samræmi við gildandi reglugerðir.

Alvarlegast er, hve illa iðnrekendur og heildsalar standa sig. Almennt sinna þeir hvorki fyrstu aðvörunum heilbrigðiseftirlitsins, né síðari kröfum um innköllun hinna hættulegu vörutegunda. Það er eins og þeir finni ekki til neinnar ábyrgðar á heilsutjóni.

Af þessum ástæðum hafa fyrstu tólf vörurnar verið bannaðar samkvæmt auglýsingu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkursvæðis. Allt eru það erlendar hreinlætisvörur, margar hverjar fluttar inn af þekktum heildsölum, sem eiga að vita betur en að stunda slík lögbrot.

Í meira en ár hefur verið til reglugerð frá heilbrigðisráðuneytinu, þar sem ákveðið er, hvernig merkja skuli vörur, sem innihalda eiturefni. Á þessari reglugerð hefur lítið mark verið tekið enn. Þess vegna er nauðsynlegt að herða opinberar gagnaðgerðir hið bráðasta.

Af innlendum framleiðendum hreinlætisvöru er það aðeins Frigg, sem hefur merkingar sínar í lagi. Bæði Mjöll og Sjöfn fara enn undan í flæmingi og vísa til þess, að innfluttar vörur séu ekki í samræmi við reglur. Það er að vísu laukrétt, en er engin afsökun.

Eiturefni Metasilikat í innfluttu Finish uppþvottaefni varð umræddu barni að alvarlegu tjóni. Þegar DV hafði samband við stórkaupmanninn, sem flytur eitrið inn, kom hann af fjöllum. Hann vissi ekki að efnið væri eitrað og vissi ekki einu sinni um reglurnar.

Þegar heildsalar halda því fram fullum fetum, að þeir hafi ekki hugmynd um, að til sé reglugerð um merkingu eiturefna, hvað þá að þeir fari eftir slíkri reglugerð, er augljóslega eitthvað meira en lítið að. Kærur og dómar gætu bætt nokkuð úr þessum dvala.

Iðnrekendur og stórkaupmenn eru ekki einir ábyrgir. Svo virðist sem seinagangur sé mikill í hinu flókna kerfi hins opinbera. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkursvæðis skrifar Hollustuvernd ríkisins, sem skrifar Eiturefnanefnd, sem skrifar heilbrigðisráðuneytinu.

Frá því að eftirlitið fór fram á, að Metasilikat yrði sett á skrá eiturefna, og þangað til ráðuneytið hafði framkvæmt skráninguna, liðu nærri þrír mánuðir. Og samkvæmt lögskýringum hinna opinberu aðila má selja eitrið allan þennan tíma. Þetta eru ófær vinnubrögð.

Í rauninni ættu öll efni, sem komast á eiturefnaskrá í einhverju viðurkenndu nágrannalandi, að fara beint á bráðabirgðaskrá hér á landi, á meðan yfirvöld eru að fullvissa sig um, hvort þau eigi heima á hinni varanlegu eiturefnaskrá eða ekki.

Auk þess þarf að stytta tímann, sem upplýsingar um slík mál eru á ferðalagi í gegnum opinbera kerfið. Ennfremur þarf að taka upp einfalt merkingakerfi eins og er í löndum Efnahagsbandalagsins. Og loks þarf að setja fulla hörku í að framkvæma reglugerðina.

Sennilega eru málaferli gegn brotlegum seljendum eitraðra vörutegunda bezta leiðin til að hindra fleiri slys af því tagi, sem lýst var í upphafi leiðarans.

Jónas Kristjánsson

DV