Stinningskaldi kosninga

Greinar

Þegar rétt vika er til kosninga, er líklegt, að flestir hafi þegar gert upp hug sinn. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur þeim, sem eru óákveðnir, fækkað ört á síðustu mánuðum. Ekki er líklegt, að moldviðri, sem þyrlað verður upp síðustu dagana, beri mikinn árangur.

Baráttan hefur til þessa verið fremur róleg og siðsamleg, að minnsta kosti í flestum sveitarfélögum. Lítið hefur verið um högg neðan beltis, sem voru virkur þáttur baráttunnar á fyrri tímum. Meira hefur verið rætt um menn og málefni, en minna kastað af skít.

Flestir verða aðeins varir við kosningabaráttuna í einu kjördæmi, ef þeir búa í Reykjavík, eða tveimur, ef þeir búa annars staðar. Hinir almennu fjölmiðlar eru flestir af eðlilegum ástæðum uppteknir af reykvísku baráttunni. DV er þó undantekningin.

Hér í blaðinu hafa verið birtar og verða birtar frásagnir af kosningabaráttunni í tæplega 60 sveitarfélögum. Þar hefur verið sagt frá helztu málum byggðarinnar, birt viðtöl við almenna kjósendur á staðnum og síðast en ekki sízt við helztu frambjóðendur allra lista.

Þessar hlutlausu upplýsingar um kosningamál hinna fjölmörgu sveitarfélaga eru einsdæmi í sinni röð, enda hefur framtakinu verið hrósað af fjölmiðlum, sem annars eru ekki sérstaklega vinsamlegir í garð DV. Í þessu blaði einu hafa menn kynnzt öllum sjónarmiðum.

Útvarp og sjónvarp hafa rekið þá stefnu að segja sem minnst frá kosningunum. Dagblöðin hafa, önnur en DV, rekið harðan áróður fyrir þeim flokki, sem þau styðja hvert um sig. Hvert þeirra hefur hagað sinni kosningabaráttu með sínum sérstaka hætti.

Morgunblaðið hefur að venju breytzt úr fréttablaði í áróðursrit, að þessu sinni fyrir borgarstjórann. Daglega hefur hann svarað fyrirspurnum í blaðinu og hann studdur hvað eftir annað í leiðurum og öðru efni. Þetta hefur fyrst og fremst verið barátta fyrir persónu.

Tíminn hefur, eins og Morgunblaðið, beint athyglinni eingöngu að Reykjavík og barizt fyrir miðbæ í Mjóddinni. Bæði blöðin hafa látið heimablöðin í öðrum sveitarfélögum sjá um slaginn fyrir listana, sem þar eru bornir fram á vegum flokkanna sinna tveggja.

Þjóðviljinn hefur hins vegar tekið á herðar sínar baráttuna fyrir listum Alþýðubandalagsins í fjölmörgum sveitarfélögum, til viðbótar harðri baráttu í Reykjavík. Blaðið hefur því verið stútfullt af áróðri vikum saman, sem er raunar engin nýlunda á þeim bæ.

Hvassasti geir Þjóðviljans hefur beinzt að kaupum borgarinnar á Ölfusvatnslandi og meintum ótímabærum framkvæmdum á Nesjavöllum. Þessu hefur verið mótmælt í Morgunblaðinu. DV fer auðvitað sína leið og birtir sérstaka úttekt með viðtölum við sérfræðinga.

Minna hefur borið á dagblaðalausu listunum. Þeir hafa auðvitað litla sem enga umfjöllun fengið í pólitísku dagblöðunum. Þeir hafa hins vegar fengið svipaðan aðgang og aðrir að DV, bæði í kjallaragreinum og fréttum, sem blaðið hefur birt frá hinum ýmsu stöðum.

Að sjálfsögðu hefur stærsti hluti umfjöllunar DV beinzt að baráttunni í Reykjavík. Hápunktur aðildar DV er stóri fundurinn í Háskólabíói kl. 20 á þriðjudaginn kemur. Þar svara spurningum leiðtogar þeirra lista, sem sætta sig við jafnan aðgang flokka að fjölmiðlum.

Þannig hafa kjósendur ­ og munu enn í viku ­ sæta afar fjölbreyttum og margátta stinningskalda upplýsinga og áróðurs. Kjósandans er svo að vega og meta.

Jónas Kristjánsson

DV