Áhrifalitlir fjölmiðlar

Greinar

Þótt dæmin sýni annað, er stöðugt talað um, að fjölmiðlar ráði úrslitum í kosningum. Kveinað er um mátt Morgunblaðsins og kvartað yfir skorti á daglegu málgagni. Ennfremur er fullyrt, að birting skoðanakannana í dagblöðum segi okkur, hvað við eigum að kjósa.

Ekki hafði Alþýðuflokkurinn fjölmiðlamátt í þessum kosningum, hvorki í lítt keyptu Alþýðublaði né í blöðum sínum á þeim stöðum, þar sem hann vann mikinn – nánast ótrúlegan sigur. Samt er árangur flokksins á þessum stöðum ekki bara góður, heldur frábær.

Þessa sögu höfum við heyrt oft áður. Þannig vann Vilmundur Gylfason sérstæðan kosningasigur fyrir sama flokk í þingkosningunum 1978.Og þannig komust Bandalag jafnaðarmanna og Kvennalistinn inn á þing 1983. Og þannig var Kvennalistinn enn inni um helgina.

Að venju var Morgunblaðið þungt af áróðri fyrir kosningarnar. Vikum saman hafði Davíð Oddsson spurningaþátt í blaðinu. Og síðustu tveir dagarnir voru nánast ekkert annað en áróður fyrir kosningu hans. Samt lak skoðanakannanafylgi af flokknum.

Varnarsigur Davíðs í Reykjavík er ekki dæmi um áhrifamátt fjölmiðla. Skoðanakannanir margra aðila sýndu, að sigur hans hefði orðið mikill, ef kosningarnar hefðu verið háðar, áður en kosningabaráttan hófst. Ef hún hefði orðið lengri, hefði hann fallið.

Sérfræðingar hafa komið fram í útvarpi og sjónvarpi til að skýra niðurstöður kosninganna. Oddamenn flokkanna gerðu það í DV í gær og leiðarahöfundar hinna blaðanna í morgun. Ekkert af þessu færir okkur sannfærandi mynd af því, sem raunverulega gerðist.

Hér verður ekki gerð tilraun til að leysa gátuna, enda er það sennilega ekki hægt. Hvernig stendur á, að Alþýðuflokkurinn lætur greipar sópa í öðru bæjarfélaginu, en nær ekki nokkrum árangri í hinu bæjarfélaginu við hliðina Þessu halda kjósendur leyndu.

Svo dularfullar eru þessar kosningar, að Alþýðuflokkurinn hrósar mestum sigri í bæ og kjördæmi brottrekins formanns, Kjartans Jóhannssonar, en nær engum árangri í bæ og kjördæmi núverandi formanns og konu hans. Hver vill skýra þetta, svo vel sé.

Ekki er einu sinni hægt að segja, að Ámundi hafi unnið þessar kosningar. Allur kraftur hans aðferða fór í slaginn í Reykjavík, þar sem árangurinn varð enginn. Hins vegar vann flokkurinn mikinn sigur í bæjum, þar sem almannatengsl voru ekki með slíku nútímasniði.

Líklega er rétt að þakka kjósendum fyrir að torvelda okkur sérfræðingunum vanmáttugar tilraunir til útskýringa. Þannig á lýðræðið að vera, einmitt óútreiknanlegt. Þetta sama lýðræði skilaði sautjánhundruð atkvæðum á Flokk mannsins, vonlausan að mati flestra.

Hefðbundið er, að vitringar og aðrir túlkendur kosningatalna segi okkur, hvaða áhrif þetta hafi á næstu alþingiskosningar. Á því sviði er öryggið meira, þegar fullyrt er, að engin bilun verði í stjórnarsamstarfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa enga aðvörun fengið.

Einnig er hægt að fullyrða, að Kvennalistinn muni telja rétt að bjóða fram í flestum kjördæmum að ári. Hið sama gildir um Flokk mannsins. Þá mun árangur þessara lista verða óháður svokölluðum áhrifamætti fjölmiðla, rétt eins og árangur Alþýðuflokksins nú.

Slá má föstu, að hvorki fjölmiðlar né skoðanakannanir vinni kosningar eða tapi þeim. Kjósendur fara sínu fram í trássi við þessa meintu áhrifaaðila. Sem betur fer.

Jónas Kristjánsson

DV