Agaskortur í flugturninum

Greinar

Íslenzk flugumferðarstjórn fær þessa dagana kaldar kveðjur í heimskunnum fjölmiðlum. Eftir einum flugfarþega var haft: “Þeir hafa allan himingeiminn. Samt voru þeir næstum búnir að drepa okkur”. Sagt er frá agaleysi og sinnuleysi í flugturninum í Reykjavík.

Ekki bæta úr skák yfirlýsingar flugumferðarstjóra um, að þeir séu í flugturninum með hugann við annað en starfið, af því að ástandið í mannlegum samskiptum sé svo slæmt á vinnustaðnum. Slíkar yfirlýsingar bera vitni um barnalegan skort á tilfinningu ábyrgðar.

Sem dæmi um agaskortinn má nefna, að hingað til hafa flugumferðarstjórar á Reykjavíkurflugvelli neitað að sýna með skýrslum, hvenær þeir taka við flugumferðarstjórn og hvenær þeir hætta. Slíkt er gert á Keflavíkurflugvelli og annars staðar í heiminum.

Mistökin í flugumferðarstjórn hafa hrannazt upp á undanförnum árum. Í júní 1983 tókst Arnarflugsmanni með snarræði af afstýra árekstri við kafbátaleitarvél varnarliðsins. Og í september 1985 munaði minnstu, að tvær Flugleiðaþotur rækjust á skömmu eftir flugtak.

Þetta ástand er þeim mun alvarlegra fyrir þá sök, að Íslendingum hefur verið trúað fyrir flugumferðarstjórn yfir Grænlandi og stórum hluta Norðurhafa allt til pólsins. Um þetta svæði fer þriðjungur af fluginu yfir Norður-Atlantshafið eða um 40.000 flug á ári.

Fyrir þessa þjónustu fékk Ísland 140 milljónir króna í fyrra. Þetta fé greiddi laun 94 manna við flugumferðarstjórn, fjarskipti og veðurspár. Þetta er umtalsverður atvinnuvegur hér á landi og getur ekki talizt gulltryggur, frekar en önnur forgengileg atvinna.

Ef Íslendingar fá á sig orð fyrir kæruleysi í flugum ferðarstjórn, er hætt við, að Alþjóða flugmálastofnunin taki aftur til athugunar, eins og hún gerði fyrir réttum áratug, hvort rétt sé að treysta Íslendingum áfram fyrir þessu viðkvæma og agaða nákvæmnisverkefni.

Komið hefur í ljós, að íslenzka flugmálastjórnin reynir að halda málunum leyndum, þegar við hefur legið, að flugvélar rekist á. Svo virðist sem danskur útvarpsáhugamaður hafi að þessu sinni heyrt samskipti flugvéla og flugturns og komið erlendum fjölmiðlum á sporið.

Slík þagnarstefna er að sjálfsögðu ekki traustvekjandi. Íslenzkir flugfarþegar telja sér vafalaust koma við, hvort búast megi við nokkurn veginn einu sinni á ári eða oftar, að flugvélar lendi í árekstrarhættu á flugstjórnarsvæðinu, sem Íslendingar ferðast um.

Ekki er heldur hugnanlegt að lesa eftir frammámönnum í fluginu, að “svona atvik, misjafnlega alvarleg, séu að gerast daglega úti um heim”. Með þessu er því óbeint haldið fram, að flugmálastjórnir og samtök þeirra reyni að halda því leyndu, að flug sé almennt stórhættulegt.

Rétt er að athuga, að hættan stafar ekki af tækni, heldur af mannlegum mistökum. Eðlilegt er, að Alþjóða flugmálastofnunin svari íslenzkum fullyrðingum um, að agaleysi og sinnuleysi sé ekki bundið við Ísland, heldur hin almenna regla í heimi flugumferðarstjórnar.

Íslenzka flugmálastjórnin er sögð hafa þolanlegan tækjabúnað. Á næstu árum verður unnt að auka öryggið, bæði með fjölgun ratsjárstöðva og auknum búnaði í flugturni, svo og með sjálfvirkri tölvuskráningu á vöktum flugumferðarstjóra við tölvurnar.

Ekkert getur þó komið í staðinn fyrir, að agi og nákvæmni verði leidd til vegs og virðingar í flugumferðarstjórn, sem alþjóðaaðilar hafa treyst okkur fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV