Þeir óttast ríkistaprekstur

Greinar

Vakið hefur athygli, að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa eftir bæjar- og sveitarstjórnarkosningar reynt að koma á framfæri áhuga á þingkosningum í haust. Þetta hefur gengið svo langt, að málið hefur verið tekið til meðferðar í valdastofnunum flokksins.

Auðvitað kom í ljós á fundum þessum, að úrslit kosninganna gáfu út af fyrir sig ekkert tilefni hugleiðinga um að flýta til hausts alþingiskosningum, sem að öðrum kosti yrði að halda á næsta vori. Kjósendur voru ekki að senda stjórnarflokkunum skilaboð eða aðvörun.

Áhangendur haustkosninga viðurkenna þetta, en segja, að erfitt sé að heyja kosningabaráttu á tímum átaka á vinnumarkaði. Þeir telja, að heildarkjarasamningar upp úr næstu áramótum verði mjög erfiðir vegna kosningafiðrings og tilheyrandi kröfuhörku.

Að baki þessarar skoðunar er vantraust á ríkisstjórninni. Það vantraust er raunar ótímabært, því að enn sem komið er hafa markmið þjóðarsáttarinnar í vetur staðizt reynsluna. Verðbólgan er í hægagangi, kaupmáttur fer vaxandi og bjartsýni er meiri en var.

Ef ástandið hefur ekki versnað á nýjan leik, þegar kemur að næstu lotu heildarsamninga eftir áramótin, verður ekki auðvelt fyrir þjóðmálaskúma að æsa til ófriðar á vinnumarkaði sem þáttar í atlögu að ríkisstjórninni í alþingiskosningum í apríl eða maí.

Miklu fremur má þá gera ráð fyrir, að samningsaðilar telji, að ekki sé stætt á öðru en að semja aftur með svipuðum hætti og gert var í vetur, því að umbjóðendur þeirra verði tiltölulega ánægðir með eins árs reynslu af friðsamlegum vinnubrögðum í kjarasamningum.

Ef illska hleypur í næstu heildarkjarasamninga, hlýtur það að stafa af, að þjóðarsátt þessa árs hafi mistekizt. Og sömuleiðis er ljóst, hvar slík mistök muni helzt geta gerzt. Hættumerkin koma öll úr einni átt, ­ það eru fréttir af uggvænlegum taprekstri hins opinbera.

Ríkið lagði upp í ferðalag þessa árs með vond fjárlög, sem gerðu ráð fyrir hálfs annars milljarðs halla á rekstri ríkisins. Baggarnir, sem ríkið batt sér með aðildinni að þjóðarsátt kjarasamninganna, hafa hækkað áætlaðan halla töluvert upp fyrir tvo milljarða króna.

Ekki fer skárri sögum af drögum fjárlagafrumvarps næsta árs, sem ríkisstjórnin fer dult með um þessar mundir. Talið er, að drögin sýni svipaðan halla á rekstri ríkisins á næsta ári, þótt hagfræðingar stjórnvalda hafi opinberlega og eindregið varað við frekari taprekstri.

Fólki kann að finnast, að tveir milljarðar á ári séu aðeins tölur á blaði. En þeir eru meira. Þeir draga dilk á eftir sér. Þeir stuðla að þenslu, ekki sízt að ójafnvægi á peningamarkaði, vaxta- og verðbólgu. Taprekstur ríkisins grefur undan markmiðum þjóðarsáttarinnar.

Frá ársbyrjun hefur skuld ríkisins við Seðlabankann hækkað úr fjórum milljörðum í sjö. Hún kann að minnka síðari hluta ársins og enda í sex milljörðum. Seðlabankinn getur þetta á hinn gamalkunna hátt, ­ með því að prenta fleiri seðla, ­ framleiða verðbólgu.

Árið er hálfnað. Fjármálaráðherra viðurkennir, að engar alvarlegar tilraunir hafi verið gerðar til aðhalds í útgjöldum. Forsætisráðherra talar óljóst um minnkun á næturvinnu ríkisstarfsmanna og betri árangur í baráttunni gegn skattsvikum. Og skattahækkanir mundu stríða gegn skattalækkunum þjóðarsáttarinnar.

Það eru óveðursskýin, er hrannast upp af ríkisfjármálunum, sem valda því, að sumir telja heppilegast, að ríkisstjórnin hlaupist sem fyrst frá vandanum.

Jónas Kristjánsson

DV