Íslenzk neyzla í Japan

Greinar

“Einkum til neyzlu innanlands” er orðalagið á niðurstöðu Alþjóða hvalveiðiráðsins um, hvað gera megi við afurðir af hvölum, sem veiddir eru í svokölluðu vísindaskyni. Á enskri tungu er þetta orðað á jafneinfaldan hátt: “Primary for local consumption”.

Sjávarútvegsráðherra, sem segist hafa unnið mikinn sigur á aðalfundi ráðsins, þegar þetta orðalag var samþykkt, túlkar það svo, að Íslendingar megi selja Japönum þær afurðir, sem afgangs verða, er Íslendingar hafa neytt 200 tonna af hvalkjöti.

Gera má ráð fyrir, að 100 hvalir, sem Íslendingar ætla að veiða í ár í svokölluðu vísindaskyni, verði að nærri 2000 tonnum af hvalkjöti. Það þýðir, að einn tíundi hluti fer til neyzlu innanlands og níu tíundu verða seldir Japönum, ef þeir þora að kaupa af okkur.

Áður vorum við búnir að vinna alþjóðlegt afrek í orðhengilshætti, þegar við ákváðum, að við þyrftum að veiða 100 hvali á ári í svokölluðu vísindaskyni. Að magni til ætti það að vera einhver stórkarlalegasta vísindarannsókn, sem sögur fara af á síðustu árum.

Hver, sem vill, getur trúað, að veiða þurfi 100 hvali á ári til að halda uppi hvalvísindum. Alþjóða hvalveiðiráðið telur að svo sé. Það ágæta ráð getur svo sem stigið skrefinu lengra og tekið upp á að telja neyzlu Japana á hvalkjöti vera íslenzka innanlandsneyzlu.

Séu vísindin í svokölluðum vísindalegu veiðum ótrúleg, er enn sérkennilegra, að unnt sé að telja hvalveiðar fyrir Japansmarkað vera veiðar “einkum fyrir innanlandsneyzlu”. Lengra verður tæpast gengið í hinni séríslenzku hugaríþrótt, orðhengilshætti.

Þetta er ekki sagt af dálæti á hvölum og áhuga á friðun þeirra, heldur frá sjónarmiði hagkvæmni. Hvalveiðar skipta okkur afar litlu. Þær mega ekki spilla afkomumöguleikum okkar á markaðstorgi umheimsins. Sigur á alþjóðlegum hvalfundum getur skaðað okkur.

Verið getur, að við komumst upp með að telja hvalveiðar vera vísindalegar rannsóknir og viðskipti við Japani vera íslenzka innanlandsneyzlu. Hitt er þó líklegra, að hinar svokölluðu “bandarísku kerlingar” og aðrir hvalfriðunarmenn séu annarrar skoðunar.

Spurningin er ekki, hvaða orðaleikir verða ofan á í Alþjóða hvalveiðiráðinu, heldur, hvort hvalfriðunarmenn láta okkur í friði eða ekki. Ef þeir kjósa að beina geiri sínum að útflutningsafurðum okkar, er mikil hætta á ferðum, hugsanlega hætta á óbætanlegu tjóni.

Enginn vafi er á, að hvalfriðunarmenn geta, ef þeir telja sig hafa hljómgrunn, þvingað ýmsa mikilvæga viðskiptavini okkar til að hætta að kaupa íslenzkar sjávarafurðir. Spurningin er ekki, hvort slíkt sé sanngjarnt eða ekki, heldur hvort það gerist eða ekki.

Hvalfriðunarmenn munu brátt komast að, hvort þeir hafi hljómgrunn fyrir andstöðu við, að 100 hvali þurfi að veiða í vísindaskyni og að sala á níu tíundu hlutum afurðanna til Japans sé íslenzk innanlandsneyzla. Þeir munu spyrja hinar svokölluðu “bandarísku kerlingar”.

Hvalfriðunarmenn munu sennilega komast að raun um, að hinar margumræddu kerlingar skilja ekki röksemdafærsluna á bak við svokallaðan sigur Íslendinga á aðalfundi Alþjóða hvalveiðiráðsins. Þær munu opna tékkheftin sín og gefa hvalfriðungum grænt ljós.

Þannig getur verið ástæða til að óska þess, hagsmuna okkar vegna, að sjávarútvegsráðherra vinni ekki fleiri orðalagssigra á alþjóðlegum hvalveiðifundum.

Jónas Kristjánsson

DV