Bandaríki á brauðfótum

Greinar

Upplýst var í síðustu viku, að skuldir Bandaríkjamanna við útlönd væru orðnar meiri en eignir þeirra í útlöndum. Einhvern tíma hefði þótt saga til næsta bæjar, að slíkt kæmi fyrir mesta peningaveldi heimsins. En nú vekur þetta samt furðulega litla athygli.

Áratugum saman hafa Bandaríkin verið uppspretta fjármagns. Þaðan hafa komið peningarnir til fjárfestinga um heim allan. Nú hefur dæmið snúizt við. Það eru arabar og Evrópumenn, sem eru að kaupa Bandaríkin. Þau eru orðin að skuldugasta ríki heimsins.

Bandaríkjamenn skulda í útlöndum sem svarar rúm lega fjörutíu þúsund milljörðum króna. Spáð er, að skuldin komist upp í tæpa sextíu þúsund milljarða, áður en hún geti farið að lækka aftur. Fjármagnskostnaðurinn, sem þessu er tengdur, er auðvitað gífurlegur.

Dæmigerður um ástandið er hinn stjarnfræðilegi halli á ríkissjóði Bandaríkjanna. Hann hefur farið hríðvaxandi í tíð núverandi forseta, sem ekki virðist skilja bókhald, þótt honum sé ýmislegt annað til lista lagt. Margir fræðimenn telja, að þetta muni leiða til hruns.

Bandarískur almenningur virðist ekki hafa ýkja miklar áhyggjur af þessu. Menn telja það jafnvel dæmi um, hversu gott sé að fjárfesta í Bandaríkjunum. Hitt ætti þó ekki að vefjast fyrir fólki, að peningavald hefur færst í auknum mæli í hendur útlendinga.

Staðreyndin er, að Bandaríkjamenn hafa um langt skeið lifað um efni fram. Það dylst fáum, sem ferðast um Bandaríkin, að víða lifir fólk furðulegu lúxuslífi, langt umfram það, sem hliðstætt fólk gerir í öðrum löndum. Bandaríkjamenn eru orðnir þessu of vanir.

Þetta er ekki gott veganesti í hinni hörðu samkeppni við Japani og Evrópubandalagið á heimsmarkaði. Japanskar þjóðartekjur á mann eru orðnar svipaðar og bandarískar, en Japanir fara mun sparlegar með sitt fé. Enda sækja þeir fram á flestum sviðum.

Engin merki hafa enn sézt um, að hækkun japanska jensins og lækkun bandaríska dollarans hafi snúið við þróuninni, sem hér er lýst. Ef hátt gengi yensins linar tök Japana á markaðinum, er líklegast, að einhverjir aðrir en Bandaríkjamenn komi þar til skjalanna.

Þegar Bandaríkjamenn átta sig á, hversu afleit staða þeirra er, má búast við, að þeir forherðist í hafta- og einangrunarstefnu, sem er afar áberandi þar vestra um þessar mundir. Þetta getur haft óþægileg áhrif á samskipti Vesturlanda og stöðu þeirra í heiminum.

Í vetur lágu 400 haftatillögur fyrir fulltrúadeild bandaríska þingsins. Þær sýna stemmninguna meðal þingmanna, þótt Reagan forseta hafi tekizt að koma í veg fyrir, að þær yrðu að lögum. Hætt er við, að stíflan bresti eftir nokkur ár og fríverzlun hrekist á flótta.

Ekki er síður hættulegt sjónarmiðið, sem á vaxandi fylgi að fagna, að Bandaríkin beri hlutfallslega of miklar byrðar og Evrópa of litlar af varnarsamstarfinu í Atlantshafsbandalaginu. Æ fleiri þingmenn vilja láta kalla bandaríska herinn heim frá Evrópu.

Þessi einangrunarstefna tengist haftastefnunni. Sameiginlega marka þær verulega hættu á versnandi samskiptum Vesturlanda. Nauðsynlegt er, að allir málsaðilar reyni að ráða bót á vandamálunum, sem hafa leitt til hinna hættulegu sjónarmiða.

Þetta varðar Íslendinga eins og aðra. Við höfum bandarískt varnarlið og höfum frjálsan Bandaríkjamarkað að hornsteini atvinnulífs okkar. Hve lengi?

Jónas Kristjánsson

DV