Ódýr fjöll til sölu

Greinar

Offramleiðsla landbúnaðarafurða hefur farið, fer og mun fara ört vaxandi í öllum álfum jarðar nema Afríku. Fjöll óseljanlegra afurða hrannast svo upp, að Evrópubandalagið hefur neyðzt til að taka á leigu vöru geymslur í löndum utan bandalagsins, svo sem í Sviss.

Jafnvel Indverjar, sem fyrir nokkrum áratugum bjuggu við árvissa hungursneyð, eiga nú svo mikið af korni, að þeir hafa ekki rúm fyrir það lengur í geymslum sínum. Svipuð birgðasöfnun er í nágrannalöndum Indlands, svo sem Taiwan, Indónesíu og Thailandi.

Smjör er gott dæmi um birgðavöru af þessu tagi. Evrópubandalagið eitt situr uppi með rúmlega milljón tonn af smjöri. Samtals nema smjörbirgðir heimsins meiru en tveimur milljónum tonna. Það samsvarar tveggja ára milliríkjaverzlun jarðarinnar á smjöri.

Stóraukin efnafræðiþekking og framleiðsla nýrra afbrigða í jurta- og dýraríkinu hafa valdið byltingu í framleiðslumagni landbúnaðar á undanförnum árum. Framundan er önnur eins bylting í kjölfar aukinnar þekkingar á erfðaeiginleikum í jurta- og dýraríkinu.

Nokkur lönd hafa tekið forustu í ódýrri framleiðslu í miklu magni og eru fyrirferðarmikil á heimsmarkaði. Nýja-Sjáland selur kindakjöt og smjör, Ástralía selur nautgripakjöt og sykur, Argentína selur nautagripakjöt og korn og Bandaríkin selja flestar tegundir búvöru.

Slík lönd geta boðið afar lágt verð og sílækkandi verð. Þau hafa þvingað offramleiðendur á borð við Evrópubandalagið til að verja sem svarar meira en 600 milljörðum íslenzkra króna á ári til stuðnings hinum ósamkeppnishæfa landbúnaði aðildarríkjanna.

Vegna hagkvæmrar framleiðslu í Bandaríkjunum, Eyjaálfu og víðar er ekki lengur rúm fyrir landbúnað í köldu landi, þar sem skilyrðin eru mun lakari en í Evrópubandalaginu. Verð íslenzkrar búvöru í útflutningi er fallið niður fyrir vinnslu- og flutningskostnað.

Sovétríkin hafa hagað sér skynsamlega á þessum markaði offramleiðslunnar. Þau eru hætt að reyna að vera sjálfum sér nóg í matvælum. Árlega kaupa þau gífurlegt magn af korni frá Bandaríkjunum, Kanada og Argentínu. Þau fá það á ævintýralega lágu verði.

Í hvert sinn sem Evrópubandalagið er á reglubundinn hátt í sem mestri örvæntingu með smjörfjallið, koma Sovétríkin til skjalanna og bjóðast til að hirða svo sem hundrað þúsund tonn, auðvitað fyrir sama sem ekkert verð. Bandalagið sættir sig við lága verðið.

Þannig verður til heimsmarkaðsverð á smjöri, sem er einn tíundi eða einn tuttugasti af því, sem kostar að framleiða smjör á Íslandi. Vegna vaxandi offramleiðslu mun þetta lága verð haldast lágt um ófyrirsjáanlega framtíð. Sama er að segja um aðra búvöru.

Í þessari viku birtist sem stórfrétt í fjölmiðlum, að Evrópubandalagið og Bandaríkin sömdu um að fresta viðskiptastríði í búvöru til næstu áramóta. Ástandið er slíkt, að svo lítill árangur sem frestur á illu varð fagnaðarefni í herbúðum beggja aðila.

Um ófyrirsjáanlega framtíð mun smáþjóðum á borð við Íslendinga henta bezt að framleiða sem allra minnst af landbúnaðarafurðum og kaupa sem mest frá þeim löndum, sem treysta sér til að selja eða neyðast til að selja á hinu lága og sílækkandi heimsmarkaðsverði.

Á þessu sviði höfum við mesta möguleika á bættum lífskjörum, varanlegu afnámi verðbólgu, lækkun ríkisútgjalda og skatta ­ og svigrúmi til arðbærra athafna.

Jónas Kristjánsson

DV