Vér landráðamenn

Greinar

Eftir nokkra deyfð á undanförnum árum hefur dagblaðið Tíminn í ritstjórnargrein mótmælt þeirri stefnu, að leyfður verði innflutningur þeirra landbúnaðaraf urða, sem nú er bannað að flytja inn. Röksemdafærslan er sem fyrr ekki upp á marga fiska.

Til marks um rénandi reisn Tímans er, að blaðið segir ofangreinda stefnu vera landráðastefnu. Slík fullyrðing er oft ábending um, að hinn orðhvati sé kominn í rökþrot eða að hugsun hans sé ekki mikilla sæva. Hvort tveggja gildir um nafnlausan leiðarahöfund Tímans.

Að stefna að innflutningsfrelsi er ekki sama og að stefna að ósjálfstæði. Við getum ekki hætt að vera sjálfum okkur nóg í matvælaframleiðslu, einfaldlega af því að við erum ekki sjálfum okkur nóg í matvælaframleiðslu. Við flytjum inn flestar okkar nauðsynjar.

Umræðuefnið er ekki sjálfsmennskan, heldur hvort halda skuli áfram að vernda tvær mjög svo afmarkaðar búgreinar, sauðfjárrækt og nautgriparækt, sem fá að einoka innlenda markaðinn, þótt þær ráði svo sem engum úrslitum í matvælaöryggi þjóðarinnar.

Raunar búa Íslendingar við þjóða mest öryggi í aðgangi að matvælum. Það stafar ekki af kjötfjalli eða smjörfjalli, heldur af því að geymslur fiskvinnsluhúsanna eru fullar af matvælum, sem bíða útflutnings. Þar eigum við nóg af ódýrum mat á örlagastundu.

Afurðir sjávarútvegs geta á neyðarstundu hæglega komið í stað afurða sauðfjár og nautgripa. Hitt er svo erfiðara að leysa, hvernig við eigum að komast yfir ávexti, grænmeti, korn og aðra búvöru, sem engum dettur í hug að framleiða hér á kostnað neytenda.

Að stefna að innflutningsfrelsi er ekki heldur sama og að stefna að ósjálfstæði, sem sagt er mundu felast í kaupum á svokölluðum niðurgreiddum búvörum frá útlöndum. Fríverzlunarhyggjan vill, að við öðlumst frelsi til að kaupa sem ódýrasta vöru, ­ í þessu sem öðru.

Heimsmarkaðsverði á búvöru er stjórnað annars vegar af nokkrum sérhæfðum afkastalöndum og hins vegar af varanlegri og vaxandi offramleiðslu. Afkastalöndin geta þolað lága verðið, en önnur lönd, til dæmis í Evrópu, greiða niður sína framleiðslu ­ fyrir heimsku sakir. Við eigum ekki að framleiða dýr smjör- og kjötfjöll, heldur aðstoða aðra við að losna við ódýr fjöll af slíku tagi. Skiptir þá litlu, hvort við skiptum við afkastamiklu löndin, sem ekki greiða niður vöru sína, eða eitthvert niðurgreiðslulandið í Evrópu. Í eðli viðskipta er fólgið að reyna að græða á þeim. Við reynum að selja vörur á borð við sjávarafurðir, sem við höfum aðstöðu og þekkingu til að framleiða, og kaupa í staðinn vöru, sem aðrir hafa aðstöðu og þekkingu til að bjóða okkur við vægu verði.

Þær þjóðir, sem mesta áherzlu leggja á slík viðskipti og græða mest, eru sjálfstæðar, en ekki hinar, sem líta á sig sem safngripi í minjasafni hefðbundins landbúnaðar, svo sem leiðarahöfundur Tímans gerir. Efnalegt sjálfstæði leiðir til annarra tegunda sjálfstæðis.

Efnalegt sjálfstæði, sem fylgir í kjölfar skynsamlegra viðskipta við erlendar þjóðir, er ekki keypt með afnámi íslenzkrar tungu eða stuðningi við svokallaða aronsku í varnarmálum, þótt leiðarahöfundur Tímans haldi því fram, trúr lágkúru sinni allt á leiðarenda.

Fríverzlunarsinnar verða áfram kallaðir landráðamenn af ómerkingum Tímans. En fríverzlunin sigrar og mun almennt verða talin þjóðhollasta stefnan.

Jónas Kristjánsson

DV