Það vottar fyrir raunsæi

Greinar

Tvær nýútkomnar skýrslur um landbúnað marka þáttaskil í umræðum um hann. Önnur er landnýtingarskýrsla frá sjálfu ráðuneytinu og hin er almenn landbúnaðarskýrsla frá Verzlunarráði Íslands. Í gögnum þessum kveður við tón, sem þekktastur er úr DV.

Ein helzta niðurstaða landnýtingarskýrslu ráðuneytisins er, að bændur í hefðbundnum búgreinum séu tvöfalt fleiri en starfsgrundvöllur sé fyrir ­ eins og nú sé ástatt. Ennfremur, að í framtíðinni verði í þessum greinum rúm fyrir enn færri bændur en þennan helming.

Þetta er sama niðurstaða og í skýrslu Verzlunarráðs. Þar segir, að gera eigi helmingi bænda kleift að hætta hefðbundnum búskap, svo að þeir geti tekið til við arðbær störf og á þann hátt aukið tekjur sínar verulega og þar með um leið aukið tekjur þjóðarinnar.

Ráðuneytisskýrslan fetar lengra og gengur í berhögg við ríkjandi byggðastefnu. Þar segir, að byggðaröskun sé í raun aðlögun að breytingum á atvinnu- og lífsháttum þjóðarinnar. Við það má bæta, að byggðaröskun er nærri aldargamalt fyrirbæri hér á landi.

Skýrslan um landnýtingu, sem samin var af fjölmennri nefnd á vegum landbúnaðarráðuneytisins, er að mörgu leyti eðlilegt framhald af nýjum viðhorfum í hópi hinna yngri manna, er starfa á vegum landbúnaðarins sem ráðunautar, sérfræðingar og stjórnendur.

Stefán Aðalsteinsson búvísindamaður hefur ritað greinaflokka, þar sem hann varar landbúnaðarmenn við yfirvofandi hruni hinna hefðbundnu búgreina, nautgripa- og sauðfjárræktar, og hvetur til eflingar annarra greina í staðinn, svo sem loðdýraræktar og fiskeldis.

Svipaða sögu segja menn á borð við Guðmund Stefánsson, hagfræðing Stéttarsambands bænda. Hann hvetur til, að vinnuafl færist úr spennitreyju hefðbundinna búgreina yfir í loðdýr, fiskeldi, hlunnindi, ferðaþjónustu og ýmsar fleiri hliðargreinar.

Meira að segja Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda, hefur opinberlega viðurkennt, að í landbúnaði starfi mun fleira fólk en nokkur möguleiki sé, að geti haft framfæri af búvöruframleiðslunni, sem markaður er fyrir í landinu.

Í síðasta ársyfirliti Jónasar Jónssonar búnaðarmálastjóra eru langir kaflar um, hversu æskilegt sé, að bændur snúi sér frá hefðbundnum búskap yfir í hinar nýju greinar, sem ekki eru á framfæri neytenda og skattgreiðenda. Einnig hann hefur óbeint viðurkennt hrunið.

Ráðamenn landbúnaðar hafa reynt að horfast í augu við þessar staðreyndir með því að koma á kvótum á sauðfé og nautgripi og skiptingu framleiðsluréttar milli bænda. Þessir kvótar fela í sér eindregna stýringu í átt til jöfnunar á framleiðslu stórbænda og smábænda.

Í landnýtingarskýrslu ráðuneytisins er hins vegar sagt, að framleiðslueiningar muni stækka í landbúnaði. Það þýðir, að stórbændum hljóti að vegna betur en smábændum, sem muni og eigi að fækka meira en sem svarar nauðsynlegri minnkun framleiðslunnar.

Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, er þessu andvígur. Hann segir ekki rétt að fækka bændum, heldur smækka stórbúin. Hann vill líka þvinga kjúklinga- og svínabændur til að minnka við sig, svo að neytendur neyðist til að kaupa meira dilkakjöt.

Fróðlegt verður að sjá, hvort raunsæisvottur hinna yngri manna má sín mikils gegn forherðingu manna á borð við Pál, sem hingað til hafa ráðið Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV