Þegar meirihluti stjórnar Byggðastofnunar ákvað í þessari viku, að hún skyldi ekki flutt frá Reykjavík til Akureyrar, varð um leið ljóst, að ekki verður unnt að flytja aðrar stofnanir út á land. Hver á að fara eftir byggðastefnu, ef Byggðastofnun gerir það ekki?
Þingmenn landsbyggðarinnar, sem mynduðu meirihlutann í stjórninni, rökstuddu niðurstöðu sína á tvennan hátt. Í fyrsta lagi þyrfti stofnunin að hafa náið samband við aðrar stofnanir, sem væru í Reykjavík. Í öðru lagi mundi starfsliðið ekki fara norður.
Akureyringar kvarta réttilega yfir þessari niðurstöðu. Hvað verður nú um háskólann nyrðra, spyrja þeir. Ekki eru meiri líkur á, að hægt sé að flytja starfsemi og starfsfólk háskólans norður en reyndust vera, þegar reynt var að ýta Byggðastofnun norður.
Augljóst er, að hið sama verður uppi á teningnum, þegar aðrar stjórnir taka ákvörðun um, hvort láta eigi undan þrýstingi um flutning stofnana og fyrirtækja út á land eða vistun nýrra stofnana og fyrirtækja úti á landi. Sú er einnig reynsla nágrannaþjóðanna.
Ráðamenn stofnana vilja hafa þær í Reykjavík, af því að Ísland er orðið að borgríki, þar sem allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar syðra, líka þær, sem varða heill og hag landsbyggðarinnar. Þar eru allar hinar stofnanirnar og allir hinir valdamennirnir.
Starfsmennirnir vilja líka vinna á Reykjavíkursvæðinu, þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru. Þar er líka allt að hafa, frá sinfóníu og óperu yfir í klámsýningar og fíknilyf. Reykjavíkursvæðið er fyrir löngu komið yfir 100.000 manna töfratölu stórborgarsvæðis.
Fólk vill vera syðra, fara suður og vera þar um kyrrt. Ekki skiptir máli, þótt meðaltekjur séu 6% undir landsmeðaltali í Reykjavík. Samt er það svæðið, þar sem stofnað er til 85% allra nýrra ársverka. Aðeins 15% nýrra ársverka verða til utan Reykjavíkursvæðisins.
Víkjum sögunni til Flateyrar: “Hér er nóg vinna. Hingað vantar alltaf fólk. Togarinn mokfiskaði á síðastliðnu ári. Hér er öll þjónusta, sem sveitarfélög geta veitt, ný sundlaug, leikskóli, tónlistarskóli, elliheimili, læknir og hjúkrunarkona og talsvert mikið félagslíf.”
Þetta er lýsing sveitarstjórans í viðtali við DV. Samt fækkaði fólki á Flateyri í fyrra um 8%. Það er mikill flótti á aðeins einu ári. Og sveitarstjórinn segir: “Þetta er einkum fólk í yngra lagi, fólk á góðum aldri, sem hefur verið að fara … Fólk vill bara ekki vinna í fiski.”
Forustumenn landshlutasamtaka tala í alvöru um, að stíflan sé að bresta, fólk fari að flykkjast til höfuðborgarsvæðisins. Það telur sig hafa verið ginnt í byggðagildru sjöunda áratugarins, þegar reynt var að færa þjóðfélagið frá Reykjavík út á landsbyggðina.
Nú er komið að skuldadögunum. Hin hefðbundna byggðastefna hefur ekki náð árangrinum, sem stefnt var að. Hún hefur kostað mikið fé og mikla sóun. Samt sagði Eskfirðingur nýlega í viðtali við DV: “Okkur fundust engir möguleikar þarna fyrir austan.”
Þeir, sem nú spara, fjárfesta á Reykjavíkursvæðinu. Hlutdeild afgreiðslustaða Reykjavíkursvæðisins í innlánsfé Landsbankans er komið upp í 86% alls innlánsfjár bankans. Litið er á fjárfestingar tímabils byggðagildru áttunda áratugarins úti á landi sem glatað fé.
Líta má á tímamótaákvörðun meirihluta stjórnar Byggðastofnunar sem punktinn yfir i-inu í hruni hinnar hefðbundnu byggðastefnu hér á landi.
Jónas Kristjánsson
DV