Gott flug og ódýrt

Greinar

Ánægjuleg tíðindi af framtíð flugs milli Íslands og annarra landa hafa borizt undanfarna daga. Svo virðist, að áfram muni halda hin óbeina samkeppni, sem um nokkurt skeið hefur ríkt milli innlendra aðila, og að erlendir aðilar muni hefja beina samkeppni að ári.

Beztu fréttirnar eru, að tekizt hefur að dæla nýju blóði í Arnarflug. Til skjalanna eru komnir hluthafar með verulegt hlutafé, sem á að veita félaginu svigrúm til að ná góðum og traustum flugbyr eftir mikla og vaxandi sviptivinda á undanförnum árum.

Það liggur í hlutarins eðli, að samkeppni er góð. Hún hvetur keppinauta til dáða. Þar með heldur hún niðri verði og lækkar það jafnvel. Þannig eykur hún kaupmátt viðskiptavina ­ bætir lífskjör fólks. Aukin samkeppni er eitt bezta hagstjórnartæki, sem til er.

Því miður hefur það löngum verið ógæfa íslenzkra ráðamanna að styðja fremur þrönga hagsmuni einokunarinnar en almannahagsmuni samkeppninnar. Liður í þeirri áráttu er útgáfa einkaleyfa til áætlunarflugs í flugi, bæði innanlands og milli landa.

Ráðamenn hafa með semingi leyft óbeina samkeppni í flugi. Slík samkeppni kemur að notum, þótt hún sé ekki eins áhrifamikil og bein. Til dæmis hefur samkeppni Flugleiða í Lúxemborgarflugi og Arnarflugs í Amsterdamflugi verið flugfarþegum til hagsbóta.

Margir hafa getað valið milli flugs til Amsterdam og til Lúxemborgar. Þeir hafa vafalaust tekið eftir, að fargjöld á þessum leiðum eru tiltölulega hagkvæm og að atlæti er tiltölulega gott. Það er af því, að hvort félag um sig vill toga fólk inn á sína flugleið.

Samkeppnin milli Lúxemborgarflugs og Amsterdamflugs hefur einnig stuðlað að auknum áróðri flugfélaganna fyrir ferðum Evrópumanna til Íslands. Þannig hefur hin óbeina samkeppni átt þátt í auknum straumi ferðamanna til landsins og vaxandi gjaldeyristekjum.

Þessi samkeppni mun nú væntanlega halda áfram. Til viðbótar eru svo allar horfur á, að erlend flugfélög taki upp beina samkeppni við hin íslenzku. Bæði Lufthansa og British Midland hafa sótt um áætlunarleyfi til Íslands, hið síðara um daglegt flug frá Glasgow.

Svo blessunarlega vill til, að einokunarhneigð íslenzkra ráðamanna fær ekki hindrað þetta flug. Í flugi gilda milliríkjasamningar um gagnkvæmni. Ef okkar fyrirtæki fá að fljúga til annarra landa, fá þeirra fyrirtæki líka að fljúga hingað ­ ef þau kæra sig um.

Enginn vafi er á, að hin erlendu félög munu hefja áróðursherferð fyrir Íslandsflugi sínu. Það hefur væntanlega þau áhrif, að fleiri ferðamenn en ella komi til landsins. Þar með eru horfur á, að innlend ferðaþjónusta haldi áfram að blómstra á næstu árum.

Ekki er síður mikilvægt, að annað hinna erlendu félaga, British Midland, er afar vel kynnt fyrirtæki, sem hefur orð fyrir góða þjónustu og lágt verð. Líklegt er, að félagið vilji gjarna bjóða lægra verð á Glasgowflugi og auðvelda okkur að njóta lágs vöruverðs þar í borg.

Þá mun hið hlálega gerast, að innlendir hagsmunaðilar og innlendir ráðamenn munu taka saman höndum gegn innlendum almannahagsmunum og standa gegn því að svokallaðir útlendingar fái að vera með svokölluð undirboð. Það er gamla einokunarlumman.

Í heild má þó segja, að endurlífgun Arnarflugs og tilkoma British Midland gefa þjóðinni vonir um bættar flugsamgöngur við umheiminn ­ og ódýrari en ella væri.

Jónas Kristjánsson

DV