Úlfar og Ljón

Veitingar

Ekki lengur þrengsli

Eftir millilendingu á hamborgarabúlunni Sprengisandi er Úlfar Eysteinsson af Pottinum og pönnunni aftur kominn í sitt rétta umhverfi í Úlfari og Ljóni við Grensásveginn. Þar hefur hans gamli veitingastaður gengið í endurnýjun lífdaganna, með meira svigrúmi en áður var.

Gallinn við fyrirmyndarstaðinn Pottinn og pönnuna fólst í þrengslunum þar. Úlfar og Ljón hafa flesta kosti hans, en hins vegar ekki þennan galla. Hátt er til lofts og vítt til útveggja í nýja, 60-70 sæta staðnum. Borðin standa dreift og yfirleitt með góðu bili á milli. Eldhúsið er opið inn í sal, eykur víðáttutilfinninguna og gerir raunar staðinn nánast berangurslegan. Að útliti eru Úlfar og Ljón afar hlutlausir og hversdagslegir í samanburði við þaulhugsuðu og vönduðu innréttingarnar í Pottinum og pönnunni.

Þetta er fjölskyldustaður, staður hjóna og barna, þótt einkum sé boðið upp á fiskrétti, en slíkir höfða venjulega ekki til barna. Vinsældirnar stafa af verðlaginu, sem er lítið hærra en í matstöðum með mötuneytisfyrirkomulagi, þar sem raðir af fólki bíða eftir, að ausið sé úr stálhólfum upp á diska. Hér er full þjónusta, utan þess að gestir borga við útganginn. Samkvæmt vinsælli reikningsaðferð minni borgar fólk á þessum stað 20% fyrir þetta ofan á Múlakaffisverð.

Brosandi þjónusta

Menn borga hins vegar ekkert aukalega fyrir gæði þjónustunnar, sem er alveg sérstök, betri en á mörgum fínu stöðunum, þar sem fólk hefur taudúka og tauþurrkur og drekkur vín með mat. Hér brosið starfsliðið hreinlega við gestum eins og gömlum vinum. Mér finnst þetta leiða til þægilegs andrúmslofts og hef tekið eftir, að mörgum öðrum finnst það líka. Og starfsliðið brosir ekki bara, heldur lætur einnig í té skjóta og örugga þjónustu.

Úlfar er yfirleitt á vettvangi, oftast sjálfur við pottana. Stundum er hann þó á bílaralli uppi í sveit. Ég kom nýlega í Úlfarslausu sunnudagshádegi og fannst matreiðslan vera ívið slakari en venjulega. Maturinn var meira eldaður og meira kryddaður en venjulega, hvort tveggja til nokkurs baga.

Þurrkuð loðna á salatborði

Sérgreinar Úlfars og staðar hans eru hinar sömu og í gamla daga, annars vegar fiskréttir og hins vegar salatborð, sem ég held, að sé hið bezta í bænum. Þar eru ótal skálar af fersku og girnilegu grænmeti, sem búa meðal annars yfir fallegum sveppum og hreðkum. Í einni skálinni hefur að undanförnu verið þurrkuð loðna, nytsamleg fæða að mati Japana.

Ekki þarf að hafa áhyggjur af gömlum lummum á fastaseðli, því að hann er enginn. Aðeins er boðið upp á breytilegan seðil dagsins með um það bil tólf réttum. Í verði þeirra er innifalin súpa dagsins með nokkrum tegundum brauðs og aðgangur að hinu viðamikla salatborði. Eftirréttur er alls enginn í boði. Af réttunum tólf eru yfirleitt um tíu fiskréttir og svo tveir kjötréttir handa hinum óforbetranlegu.

Margir réttanna eru óbreyttir á seðlinum dögum og vikum saman, svo sem gratineraður plokkfiskur með rúgbrauði og blandað sjávarréttagratín. Ég saknaði hins vegar hvítlaukskryddaðs saltfisks að portúgölskum hætti, sem var á matseðlinum um daginn, en hvarf síðan. Ég þarf að bíða tækifæris og stökkva á hann, næst þegar hann birtist á seðlinum.

Úlfar prófar stundum nýjungar. Í rúmt ár hefur hann oft boðið smálúðubita í súrsætri sósu að kínverskum hætti. Þetta er góður réttur, enda er sósan skarpari og síður sæt en slíkum sósum hættir til að vera á vestrænum Kínastöðum. Fyrir bragðið er maturinn frískari en ella.

Rauðmagi á súrkáli

Um svipað leyti var á seðlinum ein nýjasta uppfinning Úlfars, pönnusteikt rauðmagaflök, sem lágu á súrkáli, borin fram með piparsósu. Súrkálið hæfði vel rauðmaganum, sem var óvenjulega bragðmildur. Með þessu fylgdu kartöflur og gulrætur, hvort tveggja soðið hæfilega skamma stund.

Nýlega prófaði ég einnig kunnuglegri rétti, pönnusteikt karfaflök með tómati og bræddum osti, eggjahúðuð og pönnusteikt Svínavatns-silungsflök St. Germain og steinbítspiparsteik með piparsósu. Allt voru þetta góðir réttir, yfirleitt heldur meira eldaðir en nauðsynlegt er, sérstaklega þegar Úlfar var fjarri.

Súpur dagsins hafa verið tær seyði, en ekki hinar hvimleiðu hveitisúpur, sem of víða sjást í veitingahúsum hér á landi. Sósur bera hins vegar oft vitni um hveiti. Kaffið eftir matinn er gott, kostaði aðeins tíu krónur, borið fram með piparmintukúlum.

570 krónur á mann

Súpa, aðalréttur, grænmeti og kaffi kostar að meðaltali 570 krónur, ef fiskur er valinn, og 700 krónur, ef það er kjöt. Í þessum tölum felst óhóflega verðbólga, um 45% frá sama tíma í fyrra. Samanburður verðs og gæða í þjónustu og matreiðslu setur samt Úlfar og Ljón enn sem fyrr í úrvalsflokk íslenzkra veitingahúsa.

Úlfar og Ljón eru almenningi menningarauki, sem ekki er þungur á fóðrum. Gagnstætt nöfnum sínum úti í náttúrunni bíta þeir ekki fólk, – og alls ekki fjárhagslega.

Jónas Kristjánsson

Matseðill dagsins:
Kjötseyði
480 Gratineraður plokkfiskur með rúgbrauði
560 Blandað sjávarréttagratín
570 Pönnusteikt heilagfiski með rækjum, ofnbakað
560 Heilsteikt rauðsprettuflök hússins
550 Pönnusteikt karfaflök með tómati og bræddum osti
570 Smálúðubitar í súrsætri sósu
530 Pönnusteikt rauðmagaflök á súrkáli og grænpiparsósu
550 Gratineraðar gellur
550 Steinbítspiparsteik með piparsósu
590 Pönnusteikt Svínavatns-silungsflök St. Germain
590 Hvalkjöts-piparsteik með piparsósu
790 Nauta-mínútusteik með steiktum sveppum
290 Salat og súpa

DV