Óbærilegur hávaði

Punktar

Í áramótaávörpum kveinkuðu pamfílar samfélagsins sér undan biturri gagnrýni. Predikuðu jákvæðni að hætti Altúngu í Birtingi: „Maður á að segja, að allt sé í bezta lagi.“ Enginn þessara pamfíla lifir í raunheimi, ekki forseti, biskup eða forsætis. Þetta er fólk, sem ræður ekki við embætti sín og vill fá að vera í friði með sína steypu. Múlbinding fjölmiðla gagnaðist þeim ekki, því fólk hefur öðlast eigin rödd í alþýðumiðlum. Þar er hver sinn eigin ritstjóri. Margradda texti í bloggi, fésbók og tísti er að æra yfirstéttargaura, sem við héldum áður vera gersamlega heyrnarlausa. Sé hávaðinn þeim óbærilegur, er það fínasta mál.